132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Annarri umræðu um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið er nú lokið. Ég hygg að það hafi verið ágætt fyrir framgöngu þessa máls að það kom hingað til 2. umr. því að 2. umr. hefur heldur betur leitt í ljós að frumvarpið er meingallað. Við hljótum að virða það við stjórnarmeirihlutann að þetta frumvarp skuli vera sent aftur til menntamálanefndar.

Við í Frjálslynda flokknum viljum því sýna þessu máli ákveðinn velvilja þó að við höfum lagst gegn því að Ríkisútvarpið yrði hlutafélagavætt. Við höfum haft mjög alvarlegar efasemdir varðandi þennan svokallaða nefskatt og við höfum líka haft mjög alvarlegar efasemdir um það að réttindi starfsmanna væru að fullu tryggð í þessu frumvarpi. En eins og ég segi, virðulegi forseti, viljum við sýna þessu máli ákveðinn velvilja og af þeirri ástæðu munum við sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu sem fer fram nú á eftir.