132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[16:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi nefndarálitið og stöðu þessa máls sem lýtur að Sinfóníuhljómsveit Íslands. Málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar eru jú nátengd málefnum Ríkisútvarpsins og þau hafa fylgst að, Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið, og fylgst með í þjóðarsálinni einnig.

Nú hefur hv. formaður menntamálanefndar lýst yfir að frumvarp um Ríkisútvarpið fari til hv. menntamálanefndar eftir 2. umr. Ég inni þá þingmanninn eftir því hvort ekki sé eðlilegt að málefni Sinfóníuhljómsveitarinnar fylgi með. Þetta er óaðskiljanlegur hluti af málum Ríkisútvarpsins og ég tel mjög eðlilegt að svo sé áfram og vil heyra hvort formaður hv. menntamálanefndar sé ekki sömu skoðunar, að þessu verði vísað til hv. menntamálanefndar fari það á annað borð í gegnum 2. umr.