132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[16:33]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil taka fram í tilefni af þessum orðaskiptum áðan að ég hef frá upphafi þessa máls litið á þetta sem sjálfstætt mál og tel að Sinfóníuhljómsveit Íslands verðskuldi að talað sé um hana á hennar eigin forsendum og ekki sem einhvern fylgifisk annarrar stofnunar eða einhverra annarra hluta. Það var þess vegna sem ég hreyfði mótmælum við því í fyrra þegar flutt voru frumvörp um Ríkisútvarpið — sem þá hét Ríkisútvarp sf., sameignarfélag, einhver kann að muna eftir því hér í salnum — og Sinfóníuhljómsveitina. Þá gerði ég athugasemd við þá ætlan ráðherra að ræða þetta í einu lagi. Síðan hefur þetta verið aðskilið þó að vissulega tengist málin því að ástæðan fyrir því að farið var að taka lögin um Sinfóníuhljómsveitina sérstaklega fyrir er auðvitað sú að menn una ekki við það lengur að Ríkisútvarpið sé einn af rekstraraðilum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Eins og ég tók fram í 1. umr. um málið í fyrra og í 1. umr. nú erum við samfylkingarmenn í meginatriðum í grunninn sammála þeirri niðurstöðu og erum sammála bæði forustu Ríkisútvarpsins sjálfs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um það mál.

Sinfóníuhljómsveitin á sér langa og merka sögu, 56 ár er hægt að telja og er vaninn að miðað sé við 9. mars 1950 þegar fyrstu tónleikar atvinnumannahljómsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir. Forsagan er þó enn þá lengri og væri gaman að rifja hana upp. Það er kannski hægt að gera það í 3. umr. eða á eftir, en árið 1950 var Sinfóníuhljómsveitin stofnuð innan vébanda Ríkisútvarpsins og þannig varð það að Sinfóníuhljómsveitin var svona dóttir í foreldrahúsum allt fram til ársins 1982 þegar samþykkt voru þau lög sem nú gilda, nr. 36/1982. Það er skemmtilegt fyrir okkur jafnaðarmenn að það var í tíð Svavars Gestssonar þáv. menntamálaráðherra sem þetta var gert. Þessi lög eru auðvitað barn síns tíma en þau eru fyrstu lögin um Sinfóníuhljómsveitina og við þau má segja að Sinfóníuhljómsveitin hafi, ef við höldum líkingunni, orðið táningur, gengið undir eins konar fermingu og þar með fengið ákveðið sjálfstæði. Það er kannski kominn tími til þess núna árið 2006, 56 árum eftir hina formlegu stofnun hennar og 24 árum eftir að lögin voru samþykkt, að Sinfóníuhljómsveitin, sem eiginlega er flutt að heiman fyrir löngu, fái nú sérstakt lögheimili og fjárhagur hennar sé aðskilinn við foreldri sitt.

Það er þannig að stundum verða viðskipti foreldra og stálpaðra barna eða táninga svolítið erfið og því miður hefur það verið þannig undanfarin ár að Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveitin hafa af einhverjum ástæðum ekki átt nægilega góða samleið. Kannski stafar það af þeirri nauðung sem forustumönnum Ríkisútvarpsins hefur lengi fundist að þurfa að verja tekjum sínum af afnotagjaldi, útvarpsgjaldi, og öðrum tekjum, til að taka þátt í kostnaði við Sinfóníuhljómsveitina og sérstaklega vegna þess að Ríkisútvarpið hefur, eins og aðrir rekstraraðilar auk ríkissjóðs, borgarsjóðs Reykjavíkur og bæjarsjóðs Seltjarnarness, ekki haft nema að mjög litlu leyti ákvörðunarrétt um það hver þessi kostnaður væri, því að rekstraraðilarnir borga hann eftir á, að starfsárinu loknu og geta þess vegna ekki gert ráð fyrir því í sinni eigin fjárhagsáætlun hver þessi upphæð muni verða að loknu starfsári Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Ég hef fylgst nokkuð með málefnum Ríkisútvarpsins og var í útvarpsráði í fjögur ár, hef líka lítillega unnið þar á gólfinu og verið í kringum það með ýmsum hætti. Ég verð að segja að bæði sem áhugamaður um það og sem hlustandi og áhorfandi hef ég ekki skilið af hverju Ríkisútvarpið hefur ekki nýtt sér þá möguleika sem það hefur samkvæmt lögunum og samkvæmt samningum við Sinfóníuhljómsveitina um að flytja meira af efni Sinfóníunnar. Það á sérstaklega við um sjónvarpið sem einhvern veginn hefur aldrei fattað það, þannig að ég tali viðeigandi mál, að sígild tónlist er gott og vinsælt sjónvarpsefni, heldur hefur nánast forðast að nýta sér þá möguleika sem það hefur haft til að flytja ódýrt, ókeypis í raun hvað Sinfóníuna varðar, efni fyrir hlustendur ýmist á besta tíma sem mögulegur er eða þá á þeim tíma sem er utan kjördagskrár, utan þess svæðis þar sem flestir horfa. Hins vegar tekur maður eftir því að sjónvarpinu líkar vel að sýna aðrar hljómsveitir sem í útlöndum starfa og virðast taka þær fram yfir.

Ég verð því að segja að við þennan aðskilnað vona ég að þetta samstarf verði betra, sérstaklega milli sjónvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fyrirheit eru um það, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson formaður menntamálanefndar nefndi áðan, bæði frá Sinfóníuhljómsveitinni og Ríkisútvarpinu að því er okkur skildist á mönnum í nefndinni, að þetta samstarf gæti batnað þegar þessi samskipti komast í eðlilegra horf en þau hafa verið í nokkra stund.

Ég vil svo segja að það er galli á afgreiðslu þessa máls, kannski af því að það hefur þessi tengsl við Ríkisútvarpsfrumvarpið vitlausa, að þegar Sinfóníuhljómsveitin loksins flytur að heiman og fær sjálfstætt lögheimili er ekki ljóst, á þeim tíma sem 2. umr. um þetta mál fer fram, hver hinn fjárhagslegi aðskilnaður milli Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins er. Ég bæti við ríkissjóðs. Það er hin fræga þjóðarfiðla sem þar stendur á milli. Ríkisútvarpið segist eiga þessa fiðlu, Sinfóníuhljómsveitin segist eiga siðferðilegan rétt á þessari fiðlu og reyndar nokkrum öðrum hljóðfærum sem svipað er ástatt um en eru ekki jafnverðmikil og ekki jafndýrmæt sem slík. En fulltrúar ríkissjóðs, fulltrúar fjármálaráðuneytisins, segja að það sé ríkissjóður sem eigi fiðluna vegna þess að ekki hafi verið neinn aðskilnaður milli ríkissjóðs og Ríkisútvarpsins á þeim tíma sem hennar var aflað, þessarar merkilegu og dýrmætu fiðlu.

Þetta mál var ekki skýrt þegar málið valt út úr menntamálanefnd. Ég nota af ásettu ráði ekki „tekið út úr“ eða „afgreitt út úr“, heldur valt út úr menntamálanefnd sem ég lýsi síðar. Ég tel að formaður menntamálanefndar skuldi okkur skýringu á því hvernig verði með þessa fiðlu. Er hún eign ríkissjóðs? Er hún eign Sinfóníuhljómsveitarinnar eða er hún eign Ríkisútvarpsins? Þetta skiptir auðvitað miklu máli þegar Sinfónían á að standa á eigin fótum. Skiptir Ríkisútvarpið mjög miklu máli líka vegna þess að fiðlan þarf að koma inn í hina fjárhagslegu stöðu sem við förum í gegnum á næstu dögum og í sumar til þess að Ríkisútvarpið hafi jákvæða eiginfjárstöðu þegar það verður fært að lokum í annað rekstrarform, hvort sem það verður hlutafélag eða sjálfseignarstofnun. Hér er því leiðinleg gloppa á þessu máli. Ekki er vitað um hver á fiðluna sem Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari, annar af tveimur, leikur á allajafna við aðdáun og hrifningu áhorfenda.

Ég vil nefna líka aðra gloppu eða ég veit ekki hvað á að kalla það, ókurteisi, nánast dónaskap, sem þó er því miður dæmigerður fyrir vinnubrögðin í menntamálaráðuneytinu. Það framferði felst í því að þegar þetta frumvarp er smíðað, bæði það fyrra og það seinna, er ekki rætt við þá rekstraraðila sem samkvæmt núverandi lögum taka þátt í starfsemi og rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fulltrúar ríkissjóðs, menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, ræddu ekki við fulltrúa borgarsjóðs Reykjavíkur. Það kom fram í heimsóknum formanns menntamálaráðs bæði núna og í fyrra að hæstv. menntamálaráðherra hafði ekkert hreyft sig í því að sýna mönnum þá lágmarksvirðingu að ræða við þá þó að borgarsjóður Reykjavíkur standi undir 18% af rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Það er satt að segja alveg furðulegt að menn skuli haga sér svona. Það er ekki einu sinni sinnt sjálfsagðri tilkynningarskyldu milli aðila sem eru í samstarfi og bandalagi á þennan hátt. Það fyrsta sem borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar og stjórnendur fá að heyra formlega af þessu máli er þegar menntamálanefnd sendir — og má nú garmurinn Ketill eiga það — beiðni um umsögn þeim rekstraraðila sem er annar stærstur eftir að þetta frumvarp yrði að lögum.

Það er enn þá skrýtnara vegna þess að í lögunum sem nú gilda er sérstaklega í 2. mgr. 3. gr. minnst á samráð menntamálaráðuneytisins við rekstraraðila. Það er að vísu í öðru tilviki. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með samþykki rekstraraðila getur menntamálaráðuneytið heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.“

En hér er löggjafinn að segja menntamálaráðherra að hann eigi að hafa almennt samráð við rekstraraðila um þær breytingar sem kynnu að verða á bandalagi í kringum Sinfóníuhljómsveitina. Það sem hefur gerst í þessum lögum hvað þessa grein varðar er að einn rekstraraðilinn hefur fallið út. Það er bæjarsjóður Seltjarnarness sem er ábyrgur fyrir einu prósenti af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það er ekki um neina eign að ræða, það er frekar öfugt.

Mundu nú klárir lögfræðingar, svo sem hinn ágæti lögmaður, fyrrverandi hlýt ég að segja, því hann starfar nú við annað, Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, hv. þingmaður, auðvitað gagnálykta á þessari 2. mgr. 3. gr. að með sama hætti hljóti menntamálaráðuneytið að leita samþykkis rekstraraðila við því að fækka í hópi rekstraraðila. Fyrir mér er þetta svo sem ekki stórmál en það sýnir þann anda sem þetta frumvarp er unnið í og það lýsir vel vinnubrögðunum í menntamálaráðuneyti Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ef þau ættu að vera fleiri mundu þau verða samantvinnuð þannig að menn viti af hvaða rót málfars þau orð mundu spretta.

Ég segi það svo enn um þetta frumvarp að ég fagna því mjög að meiri hluta menntamálanefndar skuli, reyndar að ábendingu okkar, hafa tekist að leggja fram tillögu til að leiðrétta það frumvarp sem var lagt fram í haust. Það var nefnilega samhljóða frumvarpinu frá í fyrra að því leyti að um leið og aðild Ríkisútvarpsins var afnumin í frumvarpinu, þá nenntu þeir menn ekki að lesa lengra niður sem frumvarpið sömdu fyrir hönd menntamálaráðherrans hæstv. og skildu eftir þá klausu í 4. mgr. 3. gr. sem er svona, með leyfi forseta:

„Samningur sé gerður milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar á móti framlagi útvarpsins samkvæmt þessari grein og sé samningurinn miðaður við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa hafa mótast á undanförnum árum.“

Í frumvarpinu gerði menntamálaráðherra þannig ráð fyrir að þarna stæði ákvæði áfram um samning milli hljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins á móti framlagi útvarpsins samkvæmt þessari grein en var þó búinn að taka út úr frumvarpinu nákvæmlega það framlag sem þarna er um að ræða.

Þetta er auðvitað fingurbrjótur og mistök sem sjálfsagt er að afsaka ef þetta væri ekki í annað skipti, forseti, sem þessi mistök eru gerð. Því þetta var líka inni í frumvarpinu í fyrra. Á það var bent í 1. umr. að þetta væri inni í frumvarpinu í fyrra. Samt koma mennirnir úr menntamálaráðuneytinu, starfsmenn og þjónar hæstv. menntamálaráðherra, með þessa vitleysu í annað skipti. Eins og þetta skipti engu máli. Eins og Sinfóníuhljómsveitin sé bara einhver drusla sem ekkert þarf að vanda sig við. Það þarf bara að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og hitt er unnið með handarbökunum.

Sem betur fer hefur meiri hluta menntamálanefndar og menntamálanefndinni allri, undir forustu hins glögga og djúpvitra formanns Sigurðar Kára Kristjánssonar, hv. þingmanns, tekist að laga þetta frumvarp menntamálaráðherrans hæstv. Er óskandi að frami þessa ágæta þingmanns verði enn þá meiri þó ég óski honum ekki alla leið upp í ráðherrasæti, að minnsta kosti ekki að svo stöddu. Ekki fyrr en hann gerir sjálfsgagnrýni með stóra frumvarpið — ríkisútvarpsfrumvarpið. Það er hættulegt eins og við vitum að lyfta mönnum sem eru yfirlýstir sölumenn Ríkisútvarpsins mjög hátt í þessum málaflokki. En margir aðrir málaflokkar koma til greina sem hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson getur unnið vel að og ég óska honum allra heilla í því starfi í framtíðinni.

Þetta er búið að laga en ég hlaut, forseti, að minnast á þetta sem dæmi um undirbúning þessa máls og vinnubrögðin í menntamálaráðuneytinu.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég geta þess sem glöggir þingmenn og áheyrendur aðrir kunna að taka eftir, að það vantar minnihlutaálit úr nefndinni. Nefndarálitið er eingöngu nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar. Það er undarlegt því það er venjan ef það myndast minni hluti í nefnd að hann skili áliti og skýri frá því hvað beri á milli hans og meiri hlutans. Í menntamálanefndinni hefur meðan við höfum starfað þar sem nú störfum þar fyrir stjórnarandstöðuna kapp verið lagt á að útbúa minnihlutaálit sem séu sem skýrust og gleggst og lýsi skoðunum okkar á hlutunum og þeirri niðurstöðu sem við höfum komist að.

En þannig gekk nú til í menntamálanefndinni í þetta skiptið, ólíkt því sem venjulega gerist. Því enn verður að hrósa hv. þingmanni Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir lipurð og gætni við hin venjulegu störf í nefndinni. En í ríkisútvarpsmálinu er eins og meiri hluti nefndarinnar sé á lyfjum eða í einhverri skrýtinni leiðslu sem sett hafa verið á hann úr menntamálaráðuneytinu og frá forustu flokkanna tveggja. Því svo brá við í þessu máli, forseti, að málið var aldrei afgreitt út úr nefndinni. Frumvarpið um Sinfóníuhljómsveit Íslands var aldrei afgreitt út úr nefndinni heldur endaði sá nefndarfundur þar sem það hefur væntanlega átt að gerast á þannig að greidd voru atkvæði um frumvarpið um Ríkisútvarpið hf., hvort ætti að taka það út úr nefndinni. Það var samþykkt með 5 atkvæðum gegn 4. Síðan var fundi slitið. Síðan sleit hinn vaski formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, fundinum. Við gerðum enga athugasemd við það enda vorum við nokkuð móð, ekki sár að vísu en nokkuð móð eftir þennan fund og líka vegna þess að okkur þótti hann ákaflega óvenjulegur miðað við þá fundi sem í nefndinni hafa verið í vetur. Var líkari þeim starfsháttum sem viðhöfð voru í nefndinni í fyrra undir forustu þáverandi formanns og ég ætla ekki að nefna nafn hans að sinni. Enda er það viðkvæmt. Hann er í framboði í sveitarfélagi og ókurteislegt að vera að blanda honum í þetta mál.

Þess vegna notaði ég áðan það orðalag að málið hefði meira oltið út úr nefndinni en verið tekið út úr henni eða afgreitt út úr henni. Við hyggjumst ekki gera athugasemd við þessa afgreiðslu mála þó sumum formalistum þætti kannski ástæða til að forseti gripi inn í og léti afgreiða þetta mál aftur út úr nefndinni. En þetta var ástæðan fyrir því að við skrifuðum ekki minnihlutaálit. Þegar athygli mín og okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndinni var vakin á af hverju við gerðum það ekki var ákveðið að láta þessa eyðu standa sem eins konar minnisvarða um vinnubrögð meiri hluta menntamálanefndar í þessu máli.

Það má segja að kannski sé þetta það sem í útlöndum er oft kallað ljóðrænt réttlæti, að núna er til meirihlutaálit úr menntamálanefnd um þetta mál en í fyrra afgreiddi minni hlutinn álit sitt á því út frá þeirri hinni sömu menntamálanefnd. Þá stóð svo á, forseti, að meiri hluta menntamálanefndar lá mjög á að búa til álit um Ríkisútvarpið sem þá hét Ríkisútvarpið sf. að mig minnir, ég er farinn að ruglast í öllum þessum skammstöfunum stjórnarmeirihlutans á þessu góða fyrirtæki, þó sýnt væri þá að málið mundi ekki hljóta afgreiðslu á því þingi. Ég er ekki gáfaður maður, forseti, og tregur að skilja hlutina. En mér sýndist í haust þegar til þings kom á ný að þetta meirihlutaálit mundi hafa verið búið til fyrir markhópinn Eftirlitsstofnun EFTA. Og varð síðan umræðuefni á fundum sem fulltrúar þeirrar stofnunar áttu með ráðuneytum tveimur hér í bæ, menntamála- og fjármálaráðuneytum. Á þeim fundum og af þeim samskiptum spruttu hin frægu ESA-skjöl sem þurfti með nokkru harðfylgi að gera opinber í haust þegar ríkisútvarpsmálið kom til nefndarinnar.

Þannig stendur á þessu og þeir sem vilja vita afstöðu að minnsta kosti okkar samfylkingarmanna til málsins og lesa það af skriflegu blaði sem heitir nefndarálit er vísað á nefndarálit okkar frá því í fyrra sem heldur nokkurn veginn fullu gildi.

Að lokum þetta: Við styðjum þetta mál þótt breytingartillögur nefndarinnar séu sumar nokkuð klaufalegar, t.d. að menntamálaráðherra eigi að skipa tvo fulltrúa í stjórn Sinfóníunnar þar sem einfaldlega er settur fulltrúi menntamálaráðherra í staðinn fyrir fulltrúa Ríkisútvarpsins. Maður spyr til hvers. Af hverju tvo? Svörin eru bara þau að það þarf að breyta lögunum í hasti af því þau tengjast þessu mikla og hraðskreiða máli með Ríkisútvarpið. Það er sérkennileg tilviljun, fyrst um það er rætt, að sá fulltrúi heitir ekki fulltrúi menntamálaráðherra heldur fulltrúi menntamálaráðuneytisins. Það er að vísu ekki að kenna núverandi hæstv. menntamálaráðherra né meiri hluta nefndarinnar heldur þeim sem um þetta véluðu árið 1982, því hér er alls staðar talað um menntamálaráðuneytið en ekki menntamálaráðherra. Menntamálaráðuneytið er hins vegar ekki til sem sjálfstæður aðili. Ráðuneytið hefur engan vilja heldur er eingöngu skrifstofa ráðherra eins og þeim væri kannski sjálfum hollt að minnast þegar þeir gera ráðuneytin sín að einhverju öðru en sínum eigin skrifstofum.

Ýmislegt í sögu þessa máls þessi tvö ár, ég hef farið yfir margt af því hér, sýnir ef til vill að kominn er tími til að endurskoða í heild lögin um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við erum hér bara að taka eitt, tvö, þrjú skref en ættum að virða Sinfóníuna þess að fara sjálfstætt í endurskoðun á lögum um hana. Sinfóníuhljómsveitin sjálf er mjög að breytast. Þar er enn leikið á sömu hljóðfæri og eftir sömu lögmálum en staða hennar bæði í íslensku samfélagi og í erlendu samhengi er öll önnur en áður var. Hún er nú viðurkennd ein af betri hljómsveitum á Norðurlöndum og hróður hennar fer víða. Hún selur efni sitt á hljómdiskum víða um lönd og er eftirsótt bæði af hljóðfæraleikurum og stjórnendum, mæstróum. Ég vona að það gerist innan skamms þótt þetta séu nokkur skref í áttina. Það er full þörf á því og við styðjum þetta mál samfylkingarmenn í því trausti að það gerist á næstunni. Þó í ljósi reynslunnar, forseti, vonandi ekki fyrr en eftir næstu kosningar þegar þeim vinnubrögðum linnir sem einkenna nú nærfellt öll þau mál sem koma úr menntamálaráðuneytinu inn á þingið.