132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[17:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er fróðlegt að heyra skoðanir hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á þessu. Við gætum staðið hér í allan dag og haft skoðanir á þessu máli. Það er því miður ekkert í þingmálinu sem við fjöllum um sem þetta varðar þannig að skoðanir okkar eru tiltölulega fánýtar fyrir löggjafarsamkomuna. Eftir standa yfirlýsingar þessara þriggja aðila: Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem viðurkennir að hún á ekki fiðluna en telur sig hafa ákveðinn umráða- og nýtingarrétt, þannig að við förum nú út í þá umræðu, yfir þessari fiðlu. Ríkisútvarpið telur sig eiga fiðluna og vill fá hana greidda eigi að koma í veg fyrir að það taki fiðluna til sín og selji hæstbjóðanda. Það vill fá hana greidda annaðhvort frá Sinfóníunni, ríkissjóði eða einhverjum öðrum sem vill kaupa af henni fiðluna.

Fulltrúi ríkissjóðs, fulltrúi fjármálaráðherra á fundi nefndarinnar, sagði að í raun ætti ríkissjóður þessa fiðlu. Hvaða skoðanir Sigurður Kári Kristjánsson hefur á því, það þykir mér merkilegt efni í málfund en það sem ég var að biðja um voru ekki skoðanir hans á því heldur hvort hann hefði gengið úr skugga um þetta vandamál í stjórnkerfinu, hver eigi fiðluna, hvar er hún er færð og hver hafi leyfi til að selja hana hæstbjóðanda eða að fela Sinfóníuhljómsveitinni umsjón hennar, vonandi til þeirrar eilífðar sem Sinfóníuhljómsveitin stendur frammi fyrir.