132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[17:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er svo að með formlegum hætti hefur þetta mál ekki verið afgreitt úr nefnd.

Málin eru tvö eins og ég vakti athygli á áðan. Fyrir nefndinni lágu tvö mál og fóru í gegnum nefndina á sama tíma, annars vegar frumvarp um Ríkisútvarpið hf. og hins vegar frumvarp um breytingar á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Undir lok síðasta fundar menntamálanefndar um Ríkisútvarpið var það mál vissulega afgreitt út úr nefndinni, gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga eins og ég sagði frá áðan, en Sinfóníuhljómsveitarmálið ekki. Á það minntist enginn. Satt að segja held ég að það hafi ekki verið okkur efst í huga eftir þennan fund. Þá tóku við aðrir hlutir í þeim ágreiningi sem varð um hið vanbúna frumvarp um Ríkisútvarpið.

Síðan er þetta mál allt í einu komið inn á dagskrá þingsins. Ég er nýliði á þingi eins og menn vita og átta mig kannski ekki alveg á því hvað er rétt að gera. En þetta þyrfti meiri umræðu, hvort við förum í raun á svig við lög með því að tala um mál sem á enn eftir að afgreiða úr menntamálanefnd.

Það er svo, sem er ástæðan fyrir því að við vorum aldrei beðin um afstöðu okkar til þessa álits sem meiri hlutinn eða Sigurður Kári Kristjánsson formaður nefndarinnar hv. þm. lagði fram, að menn voru því sammála. Ég verð að segja fyrir sjálfan mig að ég er þessu áliti að mestu samþykkur, eins og fram kom í ræðu minni, þótt ég hefði viljað haga einstökum breytingartillögum á annan hátt. Ég tek ekki undir allt sem þarna er sagt og ég hefði viljað hafa orðalagið öðruvísi. En til þess gafst aldrei tækifæri. Það er því rétt, að málið var aldrei formlega afgreitt úr nefndinni.

Kannski ætti bara að stöðva umræðuna og fresta henni. Málið er ekki mjög brýnt. Forseti gæti þá úrskurðað um hvort ástæða sé til að nefndin taki þetta mál fyrir á ný og afgreiði (Forseti hringir.) það formlega.