132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:02]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu (Gripið fram í.) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég verð að segja að umræðan hefur verið lífleg og skemmtileg og fletir á henni sem mig óraði ekki fyrir að gætu komið upp, ég ætla aðeins að koma að því hér á eftir. Hér hefur margt verið rætt og ég hef nefnt út af því að að því hefur verið spurt, sérstaklega af hálfu hv. þm. Marðar Árnasonar, að ég hef talið að sú fiðla sem töluvert var rætt um í nefndarstarfinu og við meðferð málsins í hv. menntamálanefnd sé í eigu Ríkisútvarpsins. Hún var enda keypt af hálfu Ríkisútvarpsins en hefur verið í vörslu og umráðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Því verður ekki breytt nema með einhverjum formlegum hætti (Gripið fram í.) og það hefur aldrei verið gert.

Ég heyri nú ekki frammíköllin hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni en ég vil þakka honum fyrir ræðuna sem hann hélt hér og hlý orð í garð míns fyrrverandi formanns, formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar. Ég hefði nú óskað eftir því að hann hefði fjallað um Þorstein Pálsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, með sama hætti þegar við vorum að fjalla hér um bók sem forsætisnefnd þingsins ætlaði sér að gefa út um sögu þingræðisins. Þá hefðu þessar miklu mærðarræður um Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, mátt heyrast frá hv. þingmanni eða hans meðreiðarsveinum í Samfylkingunni — um þennan ágæta mann sem tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum þegar ég var tíu ára gamall og stóð sig með mikilli prýði sem slíkur.

Ég ætla svo sem ekki að halda hér langa ræðu en ég vil þó taka það fram út af því sem fram kemur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, af því að hann varpaði þeirri spurningu til mín hver væri heildarskuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveitina, að mér telst svo til að skuld Ríkisútvarpsins við hljómsveitina nemi u.þ.b. 626 millj. kr. Um þá skuld er það að segja að hún mun ekki fara neitt og ef menn lesa frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. kemur þar fram að hið nýja félag tekur við réttindum og skyldum, þar á meðal eignum og skuldum, þessa félags þannig að skuldin stendur og hefur ekki verið gerð upp og mun ekkert verða gerð upp í tengslum við þetta frumvarp enda fjallar það ekkert um þetta atriði málsins. Skuldin er þarna og þetta frumvarp leysir Ríkisútvarpið ekkert undan henni hvað sem síðar verður.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort þetta mál hafi verið afgreitt úr hv. menntamálanefnd með lögformlegum hætti eða þeim hætti sem fundarsköp Alþingis gera ráð fyrir. Þegar ég var yngri og var í menntaskóla tók ég þátt í alls kyns mælskukeppnum (Gripið fram í.) og þær voru nú ágætar. En á dauða mínum átti ég frekar von en að hv. þingmenn hefðu meira ímyndunarafl í alls kyns mælskubrögðum en menntaskólanemar höfðu á þeim árum vegna þess að ég hef aldrei vitað annan eins málflutning og hér hefur farið fram um það hvort þetta mál hafi verið afgreitt með formlegum hætti úr nefndinni. Einhverra hluta vegna komst nú málið á dagskrá hér á þingi og það hefur verið á dagskrá hér svo vikum skiptir. Sé eitthvað til í því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson heldur fram um að eitthvað hafi verið bogið við afgreiðslu málsins í nefndinni hvers vegna í ósköpunum voru þá ekki gerðar athugasemdir við það fyrr? Séu þessar athugasemdir á rökum reistar leyfi ég mér nú að halda því fram að slíkar mótbárur séu of seint fram komnar.

Aðalatriði málsins er að málið var afgreitt úr nefndinni. Fjallað var um frumvörpin um Ríkisútvarpið hf. og Sinfóníuhljómsveit Íslands saman og saman voru þau afgreidd úr nefndinni. Dreift var nefndaráliti sem lagt var fyrir á fundi nefndarinnar. Því var dreift hér á þingi og það þurfi m.a.s. að prenta það upp og leiðrétta vegna þess að í upphaflegri útgáfu var tekið fram að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson væri samþykkur efni nefndarálitsins og efnislegri afgreiðslu — ég endurtek, efnislegri afgreiðslu nefndarinnar á málinu — en svo var ekki þannig að breyta þurfti nefndarálitinu með tilliti til þess. Þar fyrir utan er það náttúrlega bókað í bækur menntamálanefndar að málið hafi verið afgreitt með þessum hætti. Ég lít því á þennan málflutning hjá hv. þingmanni og reyndar fleiri þingmönnum sem hálfgert spaug frekar en efnislegt innlegg í þessa umræðu.

Að svo búnu, frú forseti, lýk ég ræðu minni og vona að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.