132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:15]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að jafnvel þó svo kynni að vera að þetta mál hefði ekki verið tekið formlega út úr nefndinni þá væri að minnsta kosti svo að ábendingar um slíkt væru svo seint fram komnar að þær væru ekki gildar.

Mig langar að upplýsa hv. þingmann um að það eru engir sérstakir tímakvarðar á það hvenær lög eigi að gilda og hvenær ekki. (HBl: Það verður nú að upplýsa þingmenn.) Í öðru lagi þá er það svo, eins og hv. þm. Halldór Blöndal er mér örugglega sammála um, að sannleikurinn kemur aldrei of seint fram. Hv. þingmaður sagði að þetta hlyti að vera spaug. Í þessum sölum spauga menn ekki með lög. Svo einfalt er það nú.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni fyrir glögg svör varðandi fjárhagsstöðuna. Það eru fullnægjandi svör að minnsta kosti fyrir mig. En það vakti eftirtekt mína að hv. þingmaður sagði að þessi skuld, 626 millj., mundi fylgja Ríkisútvarpinu hvað svo sem síðar yrði.

Hvað á hv. þingmaður við? Hvernig er ætlast til að Ríkisútvarpið greiði þessa skuld? Hefur hv. formaður menntamálanefndar eitthvað velt því fyrir sér eða er þetta bara partur af þeim lausu endum sem alls staðar leka og lafa út úr þessum frumvörpum og minna helst á ullarpeysu sem hefur lent í rakstrarvél? Allt tætt í sundur. Nei. (HBl: … frá því að þú varst lítill drengur.)

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að nota þessar fáu sekúndur til að rifja upp bernskuminningar mínar en svarið er neitandi við frammíkalli fyrrverandi ágætis hæstv. forseta þingsins.

Bara þetta varðandi vinnubrögðin. Það er upplýst hér. Það er meira að segja hrúgað stjórnarandstæðing á nefndarálit meiri hlutans án þess hann sé spurður að því. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson þarf að leiðrétta það sérstaklega að hann er ekki með á þessu. Er það ekki nokkuð til marks um vinnubrögðin hjá þessum ágæta stjórnarmeirihluta?