132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta með skuldir útvarpsins gagnvart Sinfóníuhljómsveitinni, þá er alveg ljóst að Ríkisútvarpið þarf einhvern veginn að greiða upp þessar skuldir og ég minni á að hvort sem það eru fyrirtæki eða stofnanir sem steypa sér í skuldir þá þurfa þau að standa skil á skuldum. Það vill hins vegar til með þetta félag að það verður rekið af skattfé og hefur frekari aðgang að tekjum en flest önnur fyrirtæki sem eru í rekstri. Þannig að ég geri nú ráð fyrir að Ríkisútvarpið muni hafa ráð á því með tíð og tíma að greiða upp skuldir sínar ef stjórnvöld taka ekki þá ákvörðun að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana hvað það varðar.

En það verður ekki gert í þessu frumvarpi eins og hv. þingmaður veit sem er nú búinn að vera hérna þingmaður kannski lengur en margir teldu ástæðu til að ætla, miðað við málflutning hans í þessu máli.

En það veit hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sem er mjög reyndur fjárlaganefndarmaður, að út í slíkar aðgerðir verður ekki farið í lagasetningu eins og þessari. Það verður gert í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta veit hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ég að öðru leyti met mikils og reyni nú yfirleitt að hlusta eftir góðum ábendingum sem frá honum koma. Þetta er því bara verkefni sem Ríkisútvarpið þarf að leysa gagnvart Sinfóníuhljómsveitinni. Þannig er það. Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann í 3. umr. um þetta mál.