132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að ég geri ráð fyrir að við eigum að geta afgreitt þessi frumvörp nú á þessu góða vori. Samgöngunefndin er afkastamikil og málið er afskaplega vel undirbúið. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ljúka afgreiðslu málsins og gera það að lögum.

Hvaða ríki hafa gert breytingar? Það eru nágrannaþjóðirnar sem hafa verið að gera þessar breytingar. Þær hafa gengið mismunandi langt. Í sumum tilvikum hafa flugvellirnir algerlega verið einkavæddir og hlutafélögin jafnvel seld. En Norðurlandaþjóðirnar hafa verið að þróa þessa starfsemi í þá veru sem við erum að gera hér tillögu um. Við horfum aðallega til nágranna okkar á Norðurlöndunum um þetta skipulag.

Fækkun flugstjórnarsvæða og hverjir þrýsta á? Það er alveg ljóst að nágrannar okkar hér við Norður-Atlantshafið, án þess að ég nefni þá nákvæmlega, hafa mikinn áhuga á þessari starfsemi. Okkur Íslendingum var með sérstökum samningi við Alþjóðaflugmálastofnunina trúað fyrir því að sinna þessari þjónustu hvað varðar yfirflugið. Það er mikill vilji til þess hjá ýmsum þjóðum að taka þetta yfir og það hefur ekkert farið á milli mála að svo er.