132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:04]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau ná. Ég hygg þó að þau gefi tilefni til mjög ítarlegrar yfirferðar í hv. samgöngunefnd. Ég vil mjög gjarnan fá nánari upplýsingar um það hvernig kaupin gerast á eyrinni í þessum málum, hver þróunin hefur verið í nágrannalöndunum og með hvaða hætti nákvæmlega þetta hefur verið útfært. Eins og fram kemur í frumvarpinu voru skoðaðar að minnsta kosti fjórar leiðir til að ná þessum aðskilnaði, þjónustu annars vegar og eftirlits- og stjórnsýslu hins vegar.

Ég vil taka fram, frú forseti, að ég hygg að sá aðskilnaður þurfi að vera fyrir hendi. Hins vegar er það náttúrlega spurning hvort hann þarf að vera nákvæmlega með þessari útfærslu og yfir það þurfum við að fara nákvæmlega í samgöngunefnd. Við höfum svo sem áður í hv. samgöngunefnd rætt svipaða hluti og þar hefur þróunin, t.d. hvað varðar Vegagerðina, sem þó vissulega er ekki alþjóðleg — þar hefur fleira verið fært til Vegagerðarinnar hvað varðar eftirlit og stjórnsýslu og þjónustu og þar ægir öllu saman. Það má kannski skoða samanburðinn á milli þessara þátta þó að þeir séu ekki að öllu leyti sambærilegir.

Grundvallarhugsunin hygg ég að sé góð og nauðsynleg. Hins vegar verður að fara mjög nákvæmlega yfir það með hvaða hætti sé best að gera það. Það verður ekki gert, frú forseti, nema nefndin hafi þann tíma sem þarf. Hún þarf að senda eftir umsögnum, fá fólk til ráðslags og fara yfir þessi frumvörp með þeim hætti sem er nefndinni og þinginu til sóma.