132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru gríðarlega viðamikil mál sem hæstv. samgönguráðherra hefur hér mælt fyrir, um grundvallarbreytingu á umhverfi flugmála, flugleiðsagnar og rekstri flugvalla. Þetta eru gríðarlega stór mál og verið er að umbylta þeim, að mér sýnist, í grundvallaratriðum.

Ég vil hér fyrst staldra við þetta frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar. Þegar hlutafélag er stofnað er verið að stofna nýjan lögaðila sem lýtur allt öðrum lögum og reglum og starfar í allt öðru umhverfi en opinberar stofnanir gera eins og við þekkjum. Þetta er einkavæðing á þessari starfsemi, starfsemin lýtur þá lögum og reglum sem kveðið er á um í rekstri fyrirtækja í hlutafélagaformi.

Þá staldra ég við greinar eins og 9. og 10. gr. og vildi heyra hjá hæstv. ráðherra hvort ég skilji það rétt sem stendur þar:

„Félagið skal yfirtaka flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands ásamt tilheyrandi réttindum.“

Hvaða flugvelli er hér um að ræða sem á að færa undir hlutafélagsform í rekstri? Ég hef skilið það svo að flugvellirnir séu hluti af hinu almenna samgöngukerfi. Þeir séu hluti eða þáttur af grunnneti samgöngumála. Ég trúi ekki að ætlunin sé að færa flugvelli landsins almennt undir rekstur hlutafélags sem lýtur allt öðrum lögum og reglum en verkefni í þágu hins opinbera, eins og samgöngur eru, eiga að gera.