132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:08]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að hér er gert ráð fyrir að tiltekinn hluti af starfsemi þeirri sem nú er hjá Flugmálastjórn verði færður til hlutafélags. Ástæðan fyrir því er sú að það er mat mitt að sú starfsemi, svo sem eins og alþjóðaflugþjónustan þar sem við erum í samkeppnisumhverfi, sé betur komin í hlutafélagi.

Hvaða flugvellir fara inn í hlutafélagið? Því er til að svara að það eru allir flugvellirnir sem reknir eru á vegum Flugmálastjórnar, hvort sem þeir eru í Grímsey eða á Gjögri, á Akureyri eða á Egilsstöðum. Ég tel fullkomlega eðlilegt að gera það með sama hætti og við þekkjum með hið stóra samgöngumannvirki Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er rekin á vegum hlutafélags. Því fylgja engin vandkvæði.

En það er alveg skýrt og skilmerkilega tekið fram að uppbygging og rekstur flugvallanna sem eru á vegum þessa hlutafélags á að sinna á grundvelli almennrar stefnumörkunar stjórnvalda og með sérstökum samningi um uppbyggingu og rekstur þessara tilteknu flugvalla sem verður síðan í höndum þeirra sem stjórna hlutafélaginu. Þannig að ég tel að þetta geti fallið mjög vel saman.