132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:13]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að hér er verið að fjalla um stjórnarfrumvarp og stjórnarflokkarnir eru tveir.

Aðeins út af þessari bábilju hv. þingmanns sem alltaf kemur upp þegar verið er að ræða um hlutafélög. Það er nú þannig að í núgildandi lögum er Flugmálastjórn heimilt að stofna hlutafélag. Það hefur gefist býsna vel. Í eigu Flugmálastjórnar eru tvö hlutafélög. Ég man ekki eftir að hv. þingmaður hafi fett fingur út í þá starfsemi.

Annars vegar eru það flugfjarskipti. Það er hlutafélag í sameign Flugmálastjórnar og Háskóla Íslands meðal annars. Það hlutafélag er að þróa kerfin sem þarf að nota m.a. í flugumsjón. Annað félag sinnir flugfjarskiptunum sem eru náttúrlega geysilega mikilvægur þáttur í þessu öllu saman, það er hlutafélag. Við höfum verið í samstarfi á þeim vettvangi við Íra t.d. til þess að þróa áframhaldandi starfsemi flugfjarskipta hér á Norður-Atlantshafi. Það gengur býsna vel. Arðurinn felst ekki einungis í því að krónum sé skilað til hluthafa heldur fyrst og fremst í þeirri mikilvægu og góðu starfsemi sem hefur náð að skjóta rótum innan hlutafélagsins.

Hv. þingmenn eiga ekki að vera svona aftur í grárri forneskju og halda sér dauðahaldi í þann bjarghring, sem þeir halda, að vera á móti hlutafélagavæðingu. Við verðum að laga okkur að þessu umhverfi. Við erum í bullandi samkeppni hér á Norður-Atlantshafinu í flugrekstri og flugstarfsemi og þjónustu á sviði (Forseti hringir.) flugöryggismála. Við erum að leggja (Forseti hringir.) hér til það skipulag sem okkar (Forseti hringir.) bestu menn telja að henti okkur.

(Forseti (JóhS): Að gefnu tilefni óskar forseti eftir því að þingmenn og ráðherrar haldi sig við tilskilinn ræðutíma.)