132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[19:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög fróðleg umræða. Hæstv. ráðherra er byrjaður að upplýsa okkur um ýmsa þætti sem tengjast Flugmálastjórn og flugvallarekstri á Íslandi. Hann er að segja okkur frá hlutafélögum sem hér hefur verið stofnað til. Flugkerfi og flugfjarskipti heitir annað, nokkuð sem Alþingi mun án efa vilja setja sig vel inn í áður en gengið verður frá þessum frumvörpum. Þau eru afskaplega vel undirbúin, segir hæstv. samgönguráðherra og gefur í skyn að það hljóti að verða lítið mál fyrir Alþingi að kyngja þessum frumvörpum.

Síðan koma náttúrlega röksemdirnar. Hlutafélagaformið er vel þekkt form, og síðan hið gullvæga: Allir eru að gera það. Norðurlandaþjóðirnar eru að gera það, Bretar eru að gera það, Nýsjálendingar eru að gera það. Hvers vegna ekki við líka? Þetta er röksemdafærslan í hnotskurn fyrir hlutafélagavæðingu og þeir sem leyfa sér að andæfa eða setja fram efasemdir og spurningar eru komnir aftan úr grárri forneskju. Þetta eru röksemdir eða staðhæfingar sem við hreinlega kaupum ekki.

Eitt vil ég segja í upphafi máls míns. Ég minnist stundum frásagnar fyrrverandi póst- og símamálastjóra, Ólafs Tómassonar, þegar hann sagði frá fundum sem símamálastjórarnir á Norðurlöndum hefðu átt sín í milli um samstarf póst- og símaþjónustustofnana á Norðurlöndum og hvernig þær hefðu veitt aðstoð sín í milli og nefndi ýmis framfaramál sem Íslendingar hefðu m.a. notið mjög góðs af. Síðan hefði þessum stofnunum verið breytt í hlutafélög. Eftir að það var gert varð andinn allt annar á þessum fundum. Í stað þess að menn reyndu að rétta fram hjálparhönd þá var hún yfirleitt bak við bakið og rýtingur uppi í erminni vegna þess að nú voru þarna saman mættir til leiks samkeppnisaðilar. Þetta er tónninn í röksemdafærslu ríkisstjórnarinnar fyrir hlutafélagavæðingu opinberra stofnana.

Ég vil vekja athygli á því að hér erum við að tala um hluta af samgöngukerfi þjóðarinnar. Við erum að tala um flugvelli landsins. Við erum að tala um flugumferðarstjórnina. Ég hefði haldið að þetta teldist allt til grunnþjónustu í einu samfélagi. En nú erum við komin inn á markaðstorgið, segir hæstv. ráðherra. Við erum í alþjóðlegri samkeppni og við erum í samkeppni almennt. En er það nú svo? Er þetta svo óskaplega mikil samkeppni?

Hver er það sem gerir samninga fyrir hönd flugumferðarstjórnar um gjaldtöku, svo dæmi sé tekið? Það er ríkisvaldið. Allt er þetta gert á ábyrgð ríkisvaldsins og með forgöngu þess. Innan lands er talað um að rekstur flugvallanna í landinu sé á hendi eins aðila, a.m.k. til að byrja með. Hann á hins vegar að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu. Þar er engin samkeppni. Flugvellirnir eru allir á einni hendi, það er engin samkeppni.

Þegar hins vegar um það er að ræða að opinberir aðilar fái aðgang, hvort sem er að skatthirslum almennings eða gjaldtöku þar sem þeir eru einráðir, hefur samfélagið hingað til orðið ásátt um að slík starfsemi eigi að heyra undir tiltekin lög. Það eru stjórnsýslulög, það eru upplýsingalög, það eru lög sem eiga að gæta þess að aðilar njóti jafnræðis og að það sé farið þannig með skattfé almennings eða notendanna, sem nauðugir viljugir eru viðskiptamenn, að ásættanlegt sé. Þess vegna skortir svolítið á að hæstv. ráðherra sannfæri mig og ég kaupi það ekki að mér sé vísað inn í einhverja gráa forneskju þegar ég leyfi mér að setja fram efasemdir um þetta.

Ég minni á að í öllum þeim undirbúningi sem hér hefur verið vísað til, og þar hafa margir ágætir einstaklingar komið við sögu, þó að ég sé ekki sammála þeirri pólitísku ákvörðun sem hæstv. samgönguráðherra er ábyrgur fyrir að velja þann kost sem varð ofan á, sem er hlutafélagaformið, þá var rætt um þrjá aðra kosti. Hefur það verið skoðað? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé hægt að svara þeim kröfum, þeim markmiðum sem menn vilja ná t.d. með því að gera þessar stofnanir að B-hluta stofnunum. Hafa menn skoðað þetta?

Nefndirnar sem ígrunduðu þessi mál bentu á fleiri valkosti í stöðunni. Að sjálfsögðu kemur það núna til kasta Alþingis að skoða þessa valkosti vegna þess að valkosturinn um hlutafélagavæðingu er pólitískt val og þetta hér er pólitísk samkoma sem hlýtur að taka til skoðunar alla þá pólitísku valkosti sem eru í stöðunni nú. Að sjálfsögðu hljótum við að íhuga þá alla.

Varðandi réttindamál starfsmanna sem er atriði sem við eigum að sjálfsögðu eftir að fara mjög rækilega í saumana á þá vek ég athygli á einu, þ.e. hve mismunandi frumvörpin eru sem koma frá ríkisstjórninni hvað þennan þátt varðar. Ég sé ekki betur en þetta frumvarp sé ívið skárra en frumvarpið sem við höfum verið með til umræðu um Ríkisútvarpið vegna þess að í 7. gr. þessa frumvarps, ef ég man rétt, er vikið að réttindum starfsmanna og þar sérstaklega að biðlaunaréttinum og sagt að hans skuli menn njóta hafni þeir starfi hjá hinni nýju stofnun. Það er meira en gert er í frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Ég er fyrst og fremst að taka þetta til að varpa ljósi á mismunandi aðkomu framkvæmdarvaldsins að þessum þætti, þetta er nokkuð sem ég á að sjálfsögðu eftir að skoða betur. Í Ríkisútvarpsfrumvarpinu er talað um biðlaunarétt til ársloka 2008 og hann er einnig háður takmörkunum og fólk á þeim bænum á ekki að eiga tilkall til biðlauna hafni það starfi hjá Ríkisútvarpinu hf. Ef ég skil málið rétt, sem ég á eftir að grandskoða, er þessi þáttur ívið betri, þó að ég sé þeirrar skoðunar og styð það niðurstöðum í dómsmálum, að starfsmenn eigi að njóta biðlaunaréttar og það eigi ekki að koma til frádráttar þó að þeir afli sér launatekna á öðrum sviðum. Ég er að vísa þar í niðurstöður í dómsmáli sem ég hygg að hafi verið gegn Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma, ef ég fer rétt með.

Hæstv. forseti. Við erum hér við 1. umr. þessa máls. Ég hef mjög miklar efasemdir um þetta mál. Ég ætla að leyfa mér að vísa til bréfs sem samgönguráðuneytinu var sent undir lok janúarmánaðar frá BSRB þar sem fjallað var um drög sem þá lágu fyrir að þessum frumvörpum.

Bréfið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fyrir liggja drög að lagafrumvörpum annars vegar um Flugmálastjórn Íslands og hins vegar um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar Íslands. Leitað er eftir áliti BSRB á frumvarpsdrögunum sem enn hafa ekki verið lögð fyrir Alþingi. Ljóst er að hvatinn að breytingartillögum er annars vegar breytingar á alþjóðlegum kröfum sem íslensk stjórnvöld verða að taka mið af og hins vegar mat á því sem hefur verið kallað breytt samkeppnisumhverfi. Skýrsla stýrihóps um framtíðarskipan flugmála er notuð sem ákveðið grunngagn við lagasmíðina og sagt að ákvörðun ráðherra um að fara hlutafélagaleiðina sé byggð á þeirri skýrslu.

Í skýrslunni eru hins vegar dregnir upp fjórir valkostir sem allir fullnægja þeim formlegu og lagalegu kröfum sem eru meginforsendur þess að ráðist var í lagasmíðina. Það er ljóst af lestri skýrslunnar að það er álitamál hvaða leið af þessum fjórum má telja heppilegasta og fer það eftir því hvaða hagsmunir eru hafðir í fyrirrúmi og hvaða framtíðarsýn eða framtíðarspá er gefið mest vægi. Það er því ljóst að ákvörðun um að fara leið fjögur er byggð á pólitískum forsendum fremur en af faglegri nauðsyn.

BSRB bendir á að fulltrúum stéttarfélaga gáfust litlir sem engir möguleikar á að taka þátt í þeirri undirbúningsvinnu þar sem grunnmöguleikum var skipt upp og einn síðan valinn úr. Benda má á að aðrir möguleikar eru fyrir hendi varðandi skipulag flugmála en sú leið sem hér er valin. Kom fram á kynningarfundi sem fulltrúi BSRB sat að menn hefðu verið meðvitaðir um slík rekstrarform en ekki haft áhuga á að skoða þau frekar. Þau orð voru látin falla, að það var bara ákveðið að fara hlutafélagaleiðina, það hefur reynst ágætlega hér á Íslandi.

Þetta telur BSRB sérstök og ófullnægjandi vinnubrögð en á alveg eftir að kanna hvaða möguleikar aðrir kunna að vera fyrir hendi til að koma til móts við þær þarfir flugumferðarþjónustu að hafa sveigjanlegri fjárumsvif og hvort ekki megi finna lausn á því vandamáli í samvinnu við Alþingi, fjármálaráðuneytið og ríkisstjórn. Það er ljóst af áðurnefndri skýrslu að það koma a.m.k. þrír aðrir möguleikar til greina, aðrir en að breyta þjónustuþættinum í hlutafélag. Eins er ljóst að eðlilegt og æskilegt er, ekki síst með hliðsjón af fenginni reynslu, að eftirlitsþátturinn verði með einhverjum hætti aðskilinn öðrum stjórnsýsluþáttum. Hvaða leiðir eru bestar í þeim efnum er hins vegar eðlilegt að sé rætt á opinberum vettvangi, að hagsmunaaðilar fái að segja álit sitt sem og hvaða leiðir eru bestar í framtíðarþróun þessa mikilvæga þáttar samgöngu- og öryggismála.

Flugumsjón er í eðli sínu einokunarstarfsemi og er þáttur sem er ómissandi í nútímaþjóðfélagi. Það mun því ætíð vera á ábyrgð ríkisins að sjá til þess að þessari þjónustu sé fullnægt og að fyllsta öryggis sé gætt. Sagan sýnir að þrátt fyrir fögur orð og fyrirheit hafa flest ríkisfyrirtæki sem breytt hefur verið í hlutafélög verið seld einkaaðilum. Þeir einkaaðilar sem fengju þessa þjónustu í hendur mundu því vera í aðstöðu til að krefjast nægilegra fjárframlaga af ríkinu til að halda uppi lágmarksþjónustu jafnvel þó að illa gengi með reksturinn. Það er ekki æskileg staða fyrir ríkissjóð. Benda má á dæmi um þessa þróun erlendis, t.d. NATS á Bretlandi, National Air Traffic Services, þar sem ríkið átti 46% hlut á móti starfsmönnum 5% og einkaaðilum. BSRB leggur því til að samgönguráðherra bíði með framlagningu þessara frumvarpa því að það er ljóst að sú leið sem þar er farin er aðeins ein af mörgum mögulegum en umræða á grundvelli frumvarpanna mun takmarka umræðuna um framtíð flugumferðarþjónustu á Íslandi með þeim hætti að líkur eru á að betri lausnir komi aldrei til umræðu. BSRB mun því ekki gera athugasemdir við einstök atriði frumvarpanna á þessu stigi, þó að vissulega sé þar rík ástæða til, samanber athugasemdir FÍF og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins sem BSRB getur efnislega tekið undir, heldur gerir kröfu um að aðrir hagsmunaaðilar fái aðgang að umræðu um hvaða kostir eru bestir í stöðunni og telur óásættanlegt og ólýðræðislegt að stillt sé upp einum mjög varhugaverðum valkosti. Ýmislegt sem fyrirfinnst í þessari skýrslu sem fyrir liggur stingur óneitanlega í augu svo sem að það skuli talið til galla í leið eitt að „samskipti við starfsmenn lúti lögum um ríkisstarfsmenn“.“

Það er ekki undarlegt að BSRB, sem er hagsmunagæsluaðili fyrir starfsmennina, veki athygli á því að það er talið til sérstakra kosta við leið 1, hlutafélagaleiðina, að samskipti við starfsmenn lúti ekki lögum um ríkisstarfsmenn. Hvað er verið að tala um þarna? Er verið að tala um rétt atvinnurekanda til að segja mönnum upp störfum skýringarlaust, er það það? Ég held að hæstv. ráðherra verði að skýra nánar hvað átt er við með þessu.

Gagnrýnin sem hér kemur fram snýr ekki að frumvarpinu sem slíku sérstaklega heldur þeirri staðreynd að menn komi of seint að vali á þeim kosti, þeirri grundvallarleið sem farin er. Ég ítreka að það kann hins vegar að vera ýmislegt í þessu frumvarpi varðandi réttindi starfsmanna sem er jafnvel ívið skárra en í öðrum samsvarandi frumvörpum sem komið hafa frá ríkisvaldinu að undanförnu. Það segi ég með fyrirvara því að sjálfsögðu á eftir að skoða það mjög gaumgæfilega.

Það stendur ekki til að selja, verður okkur eflaust sagt. Ríkisflugvellirnir verða í ríkiseigu. Jú, jú, við heyrðum þetta með Póst og síma á sínum tíma. Símann átti aldrei að selja, svo var hann seldur. Við heyrðum þetta með bankana, svo voru þeir náttúrlega seldir. Við heyrum þetta núna með Ríkisútvarpið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sté í ræðustól í dag og sagði á þá leið að það væri gaman og gott að fá Ríkisútvarpið í söluvænlegri umbúðir, sá tími rynni upp von bráðar að því yrði hrint út á markaðstorgið. Það voru ekki hans orð en það var inntakið í því sem hann nefndi.

Framan af verða flugvellirnir á Íslandi eflaust á einni hendi. Það er þó allt opið fyrir það að þeim verði sundrað. Þá minnist ég ágætrar umræðu sem við áttum einhvern tíma hér í hliðarsal, ég og hæstv. samgönguráðherra, sá sem nú situr á stóli þess embættis. Við vorum að tala um heimildir hafnanna á Íslandi til að gerast hlutafélög. Hæstv. ráðherra vildi fullvissa mig um að hann vildi hag hinna smáu hafna sem bestan. Ég efast ekkert um hans ásetning í því. Ég benti hins vegar á að sá tími gæti runnið upp að hann hefði ekki vald yfir þeirri stöðu, hann fengi engu um það ráðið hvernig mismunað yrði gagnvart höfninni í Reykjavík og höfninni á Blönduósi einfaldlega vegna þess að með því að færa starfsemina í form hlutafélags væri hún komin undir annan eftirlitsaðila, inn í annað umhverfi, lyti tilsögn samkeppnisyfirvalda svo dæmi sé tekið, þar sem ekki má mismuna á markaði. Við eigum ekki að halda inn í þetta umhverfi með grunnþjónustuna í samfélaginu.

Ég hefði haldið að núna, eftir að bandaríski herinn er að fara af landi brott, sem er mikið fagnaðarefni, vildu menn endurskoða afstöðu sína til grundvallaröryggisþátta sem flugvellirnir og flugumferðarstjórnin almennt er. Það er nokkuð sem menn eru farnir að gera í Bandaríkjunum, þar sem menn reyndar eru helteknir þessari öryggisumræðu, bara skrúfa á sálinni, kemst ekkert annað að. Þar er talað um að snúa til baka ýmsum einkavæðingaráformum. Ég veit ekki hvort það er nákvæmlega á þessu sviði, ég held að það lúti reyndar meira að öryggiseftirliti hvers kyns á flugvöllum, en ég hefði haldið að það ætti að horfa á alla þessa þjónustu, alla þessa grunnþjónustu sem snertir öryggi einnar þjóðar.

Hvað gerist þá? Þá streyma hér inn í þingsali háeff-frumvörpin. Flugvellirnir á Íslandi verða að vera hlutafélög. Þeir verða að vera fyrirtæki. Landhelgisgæslan hf., það á líka að fara með hana inn á þessar brautir.

Þá erum við komin að þeim punkti sem ég byrjaði á: Það eru allir að gera það. Þetta er röksemdin. Einu sinni voru allir á támjóum skóm, muna menn eftir því? Síðan komu þykkbotna skór og ekkert annað fékkst í búðunum. Hvers vegna? Vegna þess að það voru allir að gera það. Það var tískan í það skiptið. Nú er tískan að setja háeff fyrir aftan allar opinberar stofnanir í landinu, þar á meðal flugvellina á Íslandi. Það finnst mér miður og ég er ansi hræddur um að við eigum eftir að ræða það talsvert áður en það verður að veruleika.