132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hérna hefur verið fjallað um tvö frumvörp sem hæstv. samgönguráðherra flytur, annars vegar um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og hins vegar frumvarp til laga um Flugmálastjórn Íslands. Þessi mál koma inn í þingið á síðustu dögum þess. Allir dagar eru jafngóðir hvað það varðar í sjálfu sér að mál komi fyrir þingið. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að leggja þessi frumvörp fram áður en þingi lýkur til að hægt sé að hafa þau til skoðunar fyrir næsta þing. Menn geta borið fram ákveðnar spurningar. Ákveðin atriði er þá hægt að vinna betur þannig að mér finnst alveg hárrétt hjá ráðherra að koma málinu fram hér þó síðan verði ekki unnið meira í því formlega í þingsölum því þinginu fer senn að ljúka. Ég er í hv. samgöngunefnd og þar kemur þetta mál til meðferðar. Ég vil því minnast á örfá atriði sem komu fram í máli ráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að nú um nokkurn tíma hefur verið talið nauðsynlegt að skilja að almenna rekstrarþætti sem lúta að flugleiðsögumennsku og jafnvel rekstri flugvalla annars vegar og stjórnsýsluþátt eftirlitsins hins vegar. Ég er ekki alltaf sannfærður um að það sé nauðsynlegt. Ég segi það alveg eins og er. Í litlu landi eins og Íslandi eigum við ekki að vera svona ofboðslega upptekin af því að þurfa alltaf að skilja hægri höndina frá vinstri hendinni. Það ætti bara oft og tíðum að taka á hlutunum saman með báðum höndum. Ég geri það að minnsta kosti oft. (Gripið fram í.) Já, já. Við sjáum hvernig til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn — af því að það er hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem grípur hér fram í — leiðist mjög illa af leið ef hann fylgir bara hægri stefnunni. Nú er einmitt verið að hæla Vilhjálmi Vilhjálmssyni, sem skipar efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í blöðum fyrir það að sé að víkja frá hægri stefnu flokksins og inn á miðjuna. Vafalaust mundi hæstv. samgönguráðherra kalla þetta eitthvað aftan úr grárri forneskju af því að ég hygg að Vilhjálmur sé á aldur við okkur. Engu að síður er honum hælt fyrir það að hann sé að víkja frá þeirri trúvillu sem hægri stefnan er inn á meira samfélagslega þenkjandi máta, inn á miðjuna eins og stóð í Morgunblaðinu nýverið. Það er einmitt vitnað til þess að þetta sé kannski eina ástæðan fyrir því að hann nýtur meiri vinsælda en menn gerðu ráð fyrir í upphafi þegar hann tók það verkefni að sér að leiða listann, þ.e. af því að hann víkur frá hinni hörðu hægri stefnu. (Gripið fram í: Vinstri menn.) Ja, hverjir eru nú vinstri menn í þessu? En hægri mennirnir í Sjálfstæðisflokknum ætla greinilega ekki að treysta Vilhjálmi. Af því hef ég áhyggjur. Hér kemur hæstv. ráðherra aftan úr grárri forneskju með frumvarp um hlutafélagavæðingu flugleiðsöguþjónustunnar og flugvallareksturs, frumvarp sem mig minnir að hann hafi verið gerður afturreka með fyrir fjórum árum og það talið tímaskekkja, að útrunninn væri sá tími sem menn væru að koma með svona frumvörp inn. En hæstv. ráðherra er fastur í forneskjunni og telur enn að hann sé að uppfylla gamlar stefnuyfirlýsingar Sjálfstæðisflokksins um hlutafélagavæðingu og einkavæðingu á allri almannaþjónustu og fylgir þar hv. þm. Pétri H. Blöndal sem er hinn talsmaður Sjálfstæðisflokksins í almannaþjónustumálum.

Ég held að hæstv. samgönguráðherra sé þarna ekki í góðum félagsskap. Ég held að hann ætti að huga að því að ræða við góða og gegna sjálfstæðismenn og af nýja skólanum eins og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þorstein Pálsson sem hefur einmitt í ágætum blaðagreinum undanfarið sett ofan í við hlutafélagsþráhyggju hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum. Til dæmis í blaðagrein 20. apríl síðastliðinn og víkur hann að þessari þráhyggju hægri mannanna um hlutafélagavæðingu, þ.e. reyndar um Ríkisútvarpið. Það er um Ríkisútvarpið en nákvæmlega hið sama gildir í raun um almannaþjónustu sem lýtur að flugvöllum landsins og flugþjónustunni sem er grunnþjónusta sem hér á að einkavæða. Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Það má vel vera rétt að krafan um að almennar reglur um meðferð almannafjár gildi um Ríkisútvarpið hf. rétt eins og aðra opinbera aðila, þjóni hagsmunum eigenda ... Algjörlega ... Það hefur einfaldlega ekki þýðingu varðandi gildi röksemdafærslunnar.“

Á öðrum stað vitnar hann til svara hæstv. menntamálaráðherra þar sem hann svarar gagnrýni ritstjórans og segir að hann sé bara að ganga erinda Fréttablaðsins, þ.e. alveg nákvæmlega sömu svör og hæstv. ráðherra gaf hér áðan um að þetta væru rök aftan úr grárri forneskju, segðu ekki neitt, en sýndu ákveðna rökleysu.

Ég held að það væri mjög þarft fyrir þá sjálfstæðismenn sem vilja vera nútímasjálfstæðismenn að fylgjast með skrifum Þorsteins Pálssonar í þessum efnum en slá ekki um sig með gamaldags forneskjubröndurum eins og hæstv. ráðherra áðan.

Víkjum svo að þessu frumvarpi. Ég vil sérstaklega staldra við stofnun hlutafélagsins um flugleiðsöguþjónustuna. Hæstv. ráðherra gat þess að nauðsynlegt væri núna að einkavæða flugleiðsöguþjónustuna vegna breytts umhverfis í flugleiðsögumálum, það væri mikil aukning á umferð um íslenska lofthelgi og ásókn í að fá þau verkefni sem þar þyrfti að sinna. Ég held að einmitt nú sé mikilvægt að sýna traust og staðfestu og fara ekki út í einkavæðingarflipp eins og hér er verið að leggja til.

Sem betur fer er herinn að fara og sú starfsemi sem honum fylgdi sem fólst í ýmiss konar eftirliti með loftumferð á þessu svæði og við ætlum okkur að taka hana yfir eftir því sem ég hef skilið og vil gjarnan að við gerum, þ.e. að axla aukna ábyrgð í eftirliti og þjónustu við alla umferð hvort sem hún er á lofti eða legi hvað þetta varðar. Ég tel að við ættum að ganga mun ákveðnar fram og bjóða það fram að setja hér upp stóra og öfluga eftirlits- og björgunarstöð fyrir umferð á sjó og í lofti á því stóra loft- og hafsvæði sem er í kringum okkur og, þá byrjum við ekki á því að veikja samningsstöðu okkar, öryggi okkar eða stöðu okkar með því að vera á einkavæðingarflippi. Nei, þá bjóðum við staðfestu. Við bjóðum upp á það að hér verði rekin sterk, traust, opinber stofnun sem annist þessi verkefni og geti boðið þau fram sem slík.

Alveg eins og Þorsteinn Pálsson rekur í þessari ágætu grein og reyndar líka í leiðara sem hann skrifaði skömmu áður í Fréttablaðinu þá stofnar maður hlutafélag um samkeppnisrekstur til að geta meðal annars kallað eftir arði. Það eru tvö meginmarkmið með stofnun hlutafélags, annars vegar að hlutirnir geti gengið kaupum og sölum — Annars værum við ekki að stofna hlutafélag eða hlutarfélag eins og hæstv. samgönguráðherra leggur til þegar ekki er búið að búa til hlutafélag heldur hlutarfélag af því að hluturinn er bara einn — og hins vegar til þess að kalla eftir arði. Maður stofnar því ekki hlutafélag um almannaþjónustu. Maður ætlar ekki að kalla eftir arði út úr almannaþjónustu. Maður ætlar ekki að selja bréfin ef um almannaþjónustu er að ræða. Þess vegna tek ég undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar þegar hann kallaði eftir hinum valkostunum sem voru nefndir og hægt er að skoða við rekstur á þessari starfsemi. Hér er bara lagt til hlutafélagaformið. En hv. þingmaður nefndi það að reka hér ríkisstofnun sem er mjög vel skilgreind og örugg umgjörð. Hins vegar má finna einhver önnur form á þessu. Hérna hafa stundum verið nefnd sameignarfélög, sjálfseignarstofnanir eða annað. En án raka leggur hæstv. ráðherra fram þetta frumvarp um að þetta sé eini valkosturinn sem skoða beri í stöðunni. Það finnst mér ekki vera góð vinnubrögð. Ég held að við verðum að leggja áherslu á það að í hv. samgöngunefnd verði líka stillt upp öllum hinum valkostunum í þessari stöðu.

Ég minntist á það í andsvari aðeins áðan að fara á að hlutafélagavæða rekstur á flugvöllum vítt og breitt um landið og láta þá fara að lúta lögum um arðsemiskröfur, láta þá fara að lúta almennum hlutafélagalögum. Hvaða flugvellir eru þetta? Á að fara að hlutafélagavæða rekstur Akureyrarflugvallar, rekstur Grímseyjarflugvallar, rekstur Gjögurflugvallar, rekstur flugvalla sem eru hluti af grunnalmannasamgöngukerfi landsins, hluti af grunnnetinu? Þetta er sko svo fráleitt og af því að hæstv. ráðherra nefndi áðan gráa forneskju þá held ég að ég geti tekið undir þá afstöðu sem hefur komið fram til dæmis í grein Þorsteins Pálssonar um að þessi afstaða sé í raun aftan úr grárri forneskju og svo fullkomlega ekki í takt við tímann að það er dapurlegt að þetta skuli gert. Ég trúi því raunar ekki að hæstv. samgönguráðherra, sem ég hef reynt að því að vera um margt vel meinandi við að standa vörð um almannaþjónustu landsins þó að honum hafi orðið þar fótaskortur eins og þegar samþykkt var að selja Símann o.s.frv., láti undan þrýstingi hægri aflanna í Sjálfstæðisflokknum og fari að hlutafélagavæða almannaþjónustu eins og rekstur flugvalla landsins. Ég tel að það væri rétt hjá hæstv. ráðherra og öðrum sjálfstæðismönnum að fylgjast með Vilhjálmi sem leiðir lista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann er um margt mætur maður hvort sem hann vinnur nú þessar kosningar eða ekki. En flokkurinn hans, málgagnið hans, Morgunblaðið hælir honum fyrir að hann skuli vera að yfirgefa þessa hægri stefnu, þessa einkavæðingarstefnu og færa sig yfir á miðjuna. Það hælir honum fyrir að standa vörð um samfélagsþjónustuna og telur að til séu þau verðmæti í almannaþjónustunni sem ekki eigi að hlutafélagavæða og ekki eigi að einkavæða. Þetta er honum talið til tekna. Hann er meira að segja farinn að mæla mjög ákveðið með gjaldfrjálsum leikskóla sem engum hefði dottið í hug fyrir nokkrum missirum síðan eða vikum síðan að a.m.k. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér innan sala tækju sér í munn. En þetta sýnir einmitt hvernig það er. Í fullri vinsemd vil ég hvetja þá sjálfstæðismenn sem halda að þeir geti unnið þjóð sinni gagn með þessari hægri villu sem þeir keyra hér fram að snúa af þeirri braut. Hlutafélagavæðing eða einkavæðing flugvalla landsins er alveg fáránleg. Drottinn minn dýri þegar farið er að lenda á Gjögurflugvelli og segja: ,,Heyrðu, jæja, nú er ég búinn að stofna hlutafélag sem hefur með rekstur á flugvellinum á Gjögri að ræða.“ Það er með ólíkindum að hugsa sér þetta. Hér kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem ég er viss um að er mér alveg hjartanlega sammála í þessu máli.

Þetta kemur nú fyrir samgöngunefnd og það verður gott að skoða þessi frumvörp bæði fyrir næsta vetur. Ég vil ljúka máli mínu á því að segja að samgöngunefnd ber að skoða alla valkosti en ekki grípa bara hráan þann fornaldarhugsunarhátt samgönguráðherra að allt þurfi að fara í hlutafélag. Það ber að skoða hina möguleikana líka. Við vegum svo og metum alla þessa kosti saman á hlutlausan hátt.