132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mest ámælisvert við þessi frumvörp sem lögð eru fram að það skuli vera kostað til stórfé og vinnu í sérfræðinga sem skila síðan bara einu áliti, einni leið sem hæstv. samgönguráðherra velur og gerir að sinni og sem er pólitísk. Ef sérfræðingar eru fengnir til að vinna svona verk þá stilla þeir upp þeim valkostum sem í boði eru þannig að þingið fái að sjá þá valkosti. Þess vegna vil ég kalla eftir því hvort þessi sérfræðinganefnd, sem sumir taka svo hátíðlega að þeir bukka sig og beygja fyrir og það sé hinn algildi sannleikur, sem ég geri ekki, hafi ekki stillt upp fleiri valkostum. Annars er þetta engin sérfræðinganefnd ef hún bara vinnur einn valkost samkvæmt pólitískri skipan ráðherra. Ég vil sjá fleiri valkosti setta upp og hvort þessi nefnd hafi ekki unnið fleiri valkosti sem megi nýta í vinnu málsins. Annars er þetta bara pólitískur einleikur og pólitískt glapræði og hefur enga þýðingu að vera að skipa sérfræðinganefnd til að útfæra einhvern beinan og einstrengingslegan pólitískan vilja ráðherra. Þá er þetta engin sérfræðinganefnd að mínu mati.

Varðandi síðan það sem hv. þingmaður sagði um þá Þorstein Pálsson og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson ítreka ég það sem ég sagði að fyrir hönd Sjálfstæðiflokksins, sem er til hvort sem okkur líkar betur eða verr, er verið að benda á að nú sé einmitt tíminn til að snúa frá þessari hægri villu, hún sé orðin forneskja í flokknum, og snúa sér til mýkri gilda, til samfélagslegra gilda. En við höfum hér ráðherra sem enn þá eru hluti af þessari forneskju en ég vona að þarna verði stefnubreyting á.