132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er af hinu góða og í fyllsta máta eðlilegt að hér séu sett fram sjónarmið þeirra sem taka þátt í þessari umræðu, pólitísk sjónarmið að sjálfsögðu. Fátt kemur á óvart í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur gert Þorstein Pálsson ritstjóra að leiðtoga lífs síns og hefði þurft að gera það fyrr satt að segja. En batnandi manni er best að lifa og ég tel það ágætis innlegg en það er hins vegar ekki á dagskrá. Hér erum við að ræða mjög alvarlegt málefni sem ég tel að megi ekki setja upp í einhverja kreddufestu sem nú birtist í því að allt skuli vera af hinu vonda sem tilheyrir hlutafélagastarfsemi í landinu. Ég tel þetta miklu alvarlegra mál en svo að þingmenn geti leyft sér að ganga þannig fram á hinu háa Alþingi.

Við erum í alþjóðasamstarfi við eina af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaflugmálastofnunina sem fer með málefni sem við höfum fengið að sinna og er á grundvelli þessa samnings um alþjóðaflugþjónustuna. Við ráðum ekki þeirri för ein. Hv. þingmenn Vinstri grænna geta sett upp öll þau skilyrði sem þeim dettur í hug um löggjöf hér en það er ekki víst að það falli inn í þá samninga sem við verðum að gera við alþjóðastofnanir. Við verðum þess vegna að horfa á þetta í því ljósi í hvaða veröld við erum. Það er þess vegna m.a. sem við erum að ganga í þessar breytingar. Við erum að ganga í þessar breytingar til að uppfylla þær kröfur sem til okkar eru gerðar í samningum við alþjóðastofnanir. Það er mergurinn málsins og vegna þess að samkeppnin í flugstarfseminni er orðin svo hörð í dag og kröfurnar svo miklar frá samtökum flugfélaga í veröldinni í IATA að við verðum að leita þeirra leiða sem reynast okkur hagstæðastar til að standast samkeppnina. Það er í þessu ljósi sem við erum að gera þessar breytingar að lögum.

Ég fagna alveg sérstaklega mjög málefnalegri ræðu sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir flutti í dag. Hún hefur kynnt sér þetta mál afskaplega vel og fór málefnalega yfir kosti og galla allra þessara hluta. Hún spurði spurninga. Hún vildi vita hvers vegna við þyrftum að standa fyrir þessum breytingum, hvers vegna þessar þjóðir væru að ásælast þessi verkefni og hvort það væri í raun og veru svo. Jú, það er í raun og veru svo og ég tel einmitt mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd fari yfir það og fái til sín sérfræðinga þannig að það sé ekki einungis ráðherrann sem fer yfir þau mál í ræðu heldur fái samgöngunefndin til sín sérfræðinga Flugmálastofnunarinnar og flugfélaganna sem fá þessa þjónustu til að samgöngunefndin fái fyllstu upplýsingar um hvað hér er um að ræða.

Það er mikil samkeppni í þessari þjónustu, það blasir alveg við. Aðrir þjóðir hafa lýst sig tilbúnar til að sinna þessari þjónustu og jafnvel látið að því liggja að þær gætu gert það fyrir lægra verð en við Íslendingar gerum samkvæmt samningnum sem við höfum gert við ICAO. Þetta er því mjög alvarlegt mál sem við erum að fjalla um og við verðum að sameinast um það á Alþingi að fara þær leiðir sem tryggja okkar hagsmuni í fluginu, tryggja hagsmuni starfsmanna sem vinna að þessum verkefnum á vegum Flugmálastjórnar og annarra félaga og fyrirtækja sem sinna þessari þjónustu. Það eru hagsmunir þeirra og sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga síðan allra. Það er mikilvægt verkefni og hluti af þessu breytingaferli sem við erum að leggja til að leita leiða til að standast þessa samkeppni. Við höfum staðið okkur afskaplega vel tæknilega og við erum með mjög gott starfslið sem hefur verið að vinna í þessari alþjóðaflugþjónustu þannig að við stöndum að því leyti mjög vel að vígi. Þess vegna þurfum við að búa um þetta umhverfi til að tryggja hagsmuni þess fólks sem vinnur við þessa þjónustu. Okkur gengur ekkert annað til í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum en að fara þá götu til enda.

Kostir hlutafélags í þessu tilviki eru augljósir. Við erum í samstarfi, eins og hefur margsinnis komið fram, við aðrar þjóðir í þessu og við erum í útrás. Við erum að sinna margs konar verkefnum, t.d. eins og ég nefndi fyrr í kvöld á vettvangi hlutafélags í eigu Flugmálastjórnar, Flugfjarskipti, og ég fór yfir nánar en ég tel ástæðu til að gera að umræðuefni aftur.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir nefndi það hvort innanlandsflugvellirnir verði áfram styrktir, flugvellirnir sem eingöngu sinna innanlandsfluginu. Það er augljóst að við erum að stilla upp fyrirkomulagi þar sem er um að ræða eitt hlutafélag sem á að sinna allri flugvallastarfseminni á flugvöllunum á Íslandi annarra en Keflavíkurflugvallar. Það er ekki um það að ræða að flugvallarreksturinn í Grímsey verði í sjálfstæðu hlutafélagi heldur ætlum við að reka þetta allt saman á vegum eins hlutafélags. Það er alveg ljóst að tryggja þarf ríkisframlög til uppbyggingar og rekstrar að einhverju leyti með sérstökum samningi á milli ríkisins og hlutafélagsins þannig að við getum haldið úti flugstarfsemi á Íslandi á grundvelli ákvörðunar Alþingis. Alþingi mótar stefnu í uppbyggingu og þjónustu flugvallanna og þessu hlutafélagi verður ætlað að sinna því verkefni.

Ég get tekið undir það sem fram kom hjá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur að frumvarpið er seint fram komið og það gerir þar með meiri kröfur til hraðrar vinnu í þinginu. Auðvitað hefði verið æskilegt að ljúka þessari vinnu fyrst. Það er bara þannig og verður að viðurkennast en þetta var framvindan og því verður ekki breytt.

Spurt var um starfsemi erlendis, hvað væri um að ræða. Við teljum eðlilegt að þessu hlutafélagi verði ætlaður sá möguleiki að geta farið í samstarf við önnur félög sem eru í sams konar starfsemi annars staðar. Það er alþekkt. Við erum með flugfélög sem eru í rekstri um allar jarðir og væri ekkert ómögulegt að þetta ágæta hlutafélag sem rekur flugumferðarstjórnina og flugvellina gæti tekið að sér að reka flugvelli þess vegna í öðrum löndum og skapa þannig okkar vel menntaða og hæfa og reynda fólki ný tækifæri. Úti um alla Evrópu er verið að endurskipuleggja flugvallastarfsemi og flugumferðarþjónustustarfsemi og ég tel alveg kjörið verkefni til útrásar að hafa þann möguleika. Við mundum ekki gera það það forsendum ríkisstofnunar. Ég tel að það sé ekki fær leið og þess vegna m.a., lít ég þá alveg sérstaklega til hv. 9. þm. Reykv., þurfum við að sameinast um leiðir til að skapa atvinnutækifæri fyrir Íslendinga.

Við megum ekki vera svo föst í fordómum okkar gagnvart kerfum að við getum ekki hugsað okkur að koma á hlutafélagaformi í þeim tilgangi að skapa útrás fyrir hámenntaða Íslendinga. Það er í þessu ljósi sem þetta frumvarp er flutt, skapa möguleika, skapa okkur betri stöðu til samkeppni. (Gripið fram í.) Það getur vel verið, það er ekkert útilokað í þeim efnum.

En aðalatriðið er að við séum raunsæ og við leggjum okkur fram um að gera hlutina vel og sem betur fer er það staðreyndin að til þess er tekið hvað okkur Íslendingum hefur gengið vel í starfsemi í fluginu. (Gripið fram í: Og hvað við höfum góðar samgöngur.) Já, það er alveg hárrétt líka. Það er ekki að ófyrirsynju að við höfum verið að taka á okkur margs konar þjónustu á vettvangi flugsins.

Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að við megum ekki veikja samkeppnisstöðu okkar. Ég tel að með þessu frumvarpi séum við að styrkja samkeppnisstöðu okkar þegar kemur að því að við þurfum að endurnýja samninginn við Alþjóðaflugmálastofnunina. Við verðum þá með sterkari einingu, einingu sem verður hagkvæmari og við eigum að geta staðið betur að vígi þegar kemur að framtíðarþjónustu í þessu tilliti.

Ágæti og virðulegi forseti. Ég ætla að láta þessu lokið. Ég tel að þau sjónarmið sem hafa komið fram bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu verði til athugunar hjá hv. samgöngunefnd. Ég tel afar mikilvægt að samgöngunefndin fái tækifæri til þess eins og ég sagði fyrr að kalla til alla þá sérfræðinga hjá Flugmálastjórn og ráðgjafafyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem starfa á vettvangi flugsins til að draga enn betur upp þessa mynd sem við stöndum frammi fyrir og hefur leitt til þess að ríkisstjórnin telur algerlega nauðsynlegt að ganga til þessara breytinga sem hér er verið að leggja til.