132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er um margt sammála hæstv. ráðherra um tilgang, að við séum öflug í þessari starfsemi, við getum gengið öflug til samstarfs við aðra aðila, við getum verið með hagkvæman rekstur, stundað útrás á þessum sviðum og allt þetta. Eins og ég sagði áðan að ég teldi einmitt að við ættum að bjóða fram það að við byggðum hér upp öfluga þjónustu og eftirlitsmiðstöð fyrir umferð á sjó og í lofti. Við erum sammála í meginatriðum hvað það varðar.

En þessi þráhyggja að það skuli þurfa að byggja um það hlutafélag, þar held ég að hæstv. ráðherra sé á kolrangri braut því eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan mun t.d. rekstur flugvalla að stórum hluta áfram vera styrktur af ríkinu, eðlilega því þeir eru í sjálfu sér ekki arðgefandi sem slíkir.

Ég leyfi mér aftur að vitna til greinar Þorsteins Pálssonar — því mér finnst hún um margt góð. Þar segir, með leyfi forseta: „Nú veit útvarpsstjóri eins vel og hver annar að hlutafélagaformið hefur ekkert að segja varðandi rekstrarhagkvæmni fyrirtækja.“ Annars staðar segir hann í greininni: „Mörg hlutafélög eru illa rekin og nýta tekjur sínar illa. Almennt er viðurkennt að verst séu þau hlutafélög rekin sem að meira eða minna leyti byggja afkomu sína á ríkisstyrkjum“ og áfram segir í greininni að í slíkum tilfellum eigi hlutafélagaformið ekkert við.

Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra: Vill hann ekki endurskoða það að við a.m.k. skoðum önnur rekstrarform?