132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég frábið mér þá umsögn hæstv. ráðherra að ég sé að tala léttúðlega um þetta mál, alls ekki. Ég tel þetta í sjálfu sér stórmál og það sé frekar léttúð hæstv. ráðherra ef hann ætlar að halda því stíft fram að hlutafélagsformið sé það eina sem komi til greina. Það finnst mér ekki ábyrgt. Þess vegna kallaði ég eftir því við hæstv. ráðherra í fyrsta lagi að hann færði rök fyrir því að breyta þurfi þessu í hlutafélag til þess einmitt að standa í samkeppni, standa í samskiptum við erlenda aðila um þessi verkefni. Engin rök hafa komið fram fyrir því að nauðsynlegt sé að það skuli vera hlutafélag. Ég benti á að þaðan af síður væru rök fyrir því að stofna hlutafélög um rekstur flugvalla vítt og breitt um landið, alveg fráleitt, sem eru hluti af grunnneti samgangna og það ætti síst við.

Í frumvarpinu er fjallað um að stýrihópur og sérfræðingahópur hafi unnið þessar tillögur og þessi tillaga um hlutafélagaformið hafi orðið ofan á og uppskiptin sem þarna eru lögð til. Ég kalla áfram eftir því hvort hæstv. ráðherra hafi undir höndum afrakstur einhverrar vinnu sem hægt væri að notast við til að bera saman þessa valkosti. Ég tel þetta mikið alvörumál og menn eigi ekki að hrapa að t.d. hlutafélagavæðingu bara hlutafélagavæðingarinnar vegna, bara vegna þess að menn hafa fest í einhverri þráhyggju að það skuli vera hlutafélag. Það finnst mér mikil þráhyggja og þess vegna kalla ég eftir þeirri vinnu sem hlýtur að hafa verið lögð í það að stilla þessu upp og bera saman kosti og galla hinna mismunandi rekstrarforma á þessari mikilvægu almannaþjónustu.