132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[20:59]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki svo að ég sé að skjóta mér á bak við sérfræðinga úti í bæ vegna þessa frumvarps. Frumvarpið er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ég hef flutt það sem samgönguráðherra. En fjölmargir hafa komið að þessu verkefni, þ.e. undirbúningi frumvarpsins og m.a. tveir sérfræðingahópar. Annars vegar hópur sem fékk það verkefni að huga að framtíðarskipan flugmála á Íslandi í þeim tilgangi að styrkja stöðu okkar á vettvangi flugsins, tryggja þá atvinnustarfsemi og tryggja atvinnuöryggi þeirra sem vinna við flugið á öllum sviðum. Sá hópur skilaði tillögum og síðan var settur annar hópur yfir það að undirbúa verkefnið í hendurnar á ráðuneytinu, svokallaður umbreytingahópur. Þar voru sérfræðingar á fjölmörgum sviðum, þar á meðal fyrrverandi starfsmaður Alþjóðaflugmálastjórnarinnar sem gerþekkir þetta umhverfi, gerþekkir þessar aðstæður allar, fyrir utan einstaklinga sem tengjast fluginu í dag á Íslandi. En aðalatriðið er að frumvarpið er á mína ábyrgð og ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.

Bara hlutafélag. Það er svo fjarri lagi að hægt sé að tala með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir að hér sé verið að leggja til lagabreytingar bara vegna þess að okkur hugnist vel hlutafélagaformið. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar að þessi leið sé affarasælust fyrir þjóðina. Við færum margvísleg rök í greinargerðinni með frumvarpinu og í þeim skýrslum sem að baki þessu liggur og er ekki hægt að fara ofan í þau í andsvari. Við færum fullgild og mjög góð rök fyrir þessum tillögum.