132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að vara hæstv. ráðherra við því að væna okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að vera í einhverjum sýndarleik frammi fyrir sjónvarpsvélum.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að við erum að ræða mjög alvarlegt mál. Við erum að tala um einkavæðingu á flugvöllunum á Íslandi sem eru grunnþáttur í samgöngukerfi þjóðarinnar og við erum að tala um þetta mál af mikilli alvöru. Við erum hins vegar að reyna að átta okkur á því hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra. Hann talar mikið um samkeppni. Ég sé að sjálfsögðu, og við gerum það, samkeppnina við aðrar flugumferðarstjórnir. Það eru hins vegar stjórnvöld á hverjum stað sem annast samningaviðræðurnar sjálfar þannig að við erum að tala þarna um opinbera starfsemi þótt framkvæmdaraðilinn kunni að verða hlutafélag eins og hér er lagt til og þá vegna þess að það hefur meiri sveigjanleika og meiri snerpu eins og hæstv. ráðherra orðaði það.

Hvað er það sem kemur í veg fyrir snerpuna og sveigjanleikann núna? Eru það ekki stjórnvöld? Ef sá fulltrúi stjórnvalda sem hér situr, hæstv. ráðherra, kysi að draga sig í hlé og koma ekki í veg fyrir hin snöfurmannlegu og snörpu viðbrögð mætti ekki gera það þá með bæði slíkri afstöðu og þá hugsanlega lagabreytingu, t.d að gera þessa stofnun að B-hluta stofnun?

Í annan stað á ég erfitt með að átta mig á þessari útrásarhugmynd hæstv. ráðherra í rekstri flugvalla. Ég leyfi mér að vara við slíkri hugsun. Þar sem farið hefur verið út á slíkar brautir eins og í Bretlandi, ég þekki það mjög vel af lestri fagtímarita frá breskri verkalýðshreyfingu, hefur verið varað við því og sýnt fram á að einkavæðing þessarar þjónustu hefur leitt til uppsagna á starfsfólki og minnkandi öryggis.