132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:11]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Strax í upphafi vil ég byrja á því að gefa hæstv. ráðherra einkunnir. Hann fær ákaflega háa einkunn fyrir tvennt hjá mér. Í fyrsta lagi fyrir alveg prýðilega ræðu sem hann flutti áðan og var innblásin af hugsjónaþrótti Snæfellsfrumkvöðuls. Andstætt því sem hv. þingmenn hafa talað úr röðum Vinstri grænna er ég sannfærður um að sú starfsemi sem þetta fyrirtæki á að sinna í framtíðinni gæti leitt til útrásarmöguleika.

Flugstarfsemi á Íslandi er þekkingariðnaður og flug almennt er þekkingariðnaður og Íslendingar hafa með langri reynslu heyjað sér mikillar þekkingar á þessu sviði. Íslendingar eru fengnir til að sinna flugstörfum mjög víða um veröldina. Þetta er að verða ákaflega mikilvæg atvinnugrein í samfélaginu. Ég er alveg sannfærður um að sú reynsla sem Íslendingar búa yfir við það að reka flugvelli og sinna flugleiðsögu við erfið skilyrði gæti í framtíðinni reynst vel fallin til útflutnings enda er í frumvarpinu og greinargerðinni rætt töluvert um að horfa skuli til lengri tíma.

Hitt sem hæstv. ráðherra fær prik fyrir hjá mér og það er nú eiginlega stærra, er það hugrekki sem býr í þessu frumvarpi og svo bjartsýnin. Þá á ég við að hæstv. ráðherra skuli á síðasta lokaspretti þingsins koma með frumvarp um hlutafélagavæðingu vitandi að hér eru dýrvitlausir menn í salnum í hvert einasta skipti sem slíkt frumvarp kemur fram. Svona frumvarp er líklegt til að reisa mikla andstöðu en vonin og bjartsýnin sem leiftrar af ráðherranum birtist í því að hann talaði um eins og það væri sjálfsagt mál að þetta mál yrði afgreitt með töluverðu hraði gegnum þingið. Ég er alveg sannfærður um að hans ágætu vinir í stjórnmálaflokknum Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munu leggjast á sveif með hæstv. ráðherra í þessu.

Ég er þeirrar skoðunar að hlutafélagaformið sé rekstrarform sem menn megi alls ekki útiloka við viss skilyrði. Ég hef lagst harkalega gegn hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins en þar eiga allt önnur lögmál við en hér. Ég hef almennt fylgt þeirri reglu þegar ég skoða þessi mál að ef um er að ræða grein eða fyrirtæki, stofnun sem er klárlega í samkeppni og fær sitt rekstrarfé að uppistöðu til fyrir eigið frumkvæði, þ.e. sjálfsaflafé, sé alveg sjálfsagt að skoða það til þrautar hvort ekki sé heppilegt að reka slíkt ríkisfyrirtæki í formi hlutafélags.

Hitt er svo annað mál að þegar þessi ríkisstjórn hefur háeffað stofnanir þá hefur hún haft mikla tilhneigingu til að selja hana tiltölulega hratt í kjölfarið. Það er væntanlega það sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eiga við þegar þeir tala um mögulega einkavæðingu og líkur á að þessi starfsemi verði seld. Ég er tiltölulega óhræddur við það. Ég held að það gerist ekki. Hins vegar sé ég fyrir mér að svona starfsemi gæti vel tekið að sér ákveðin verkefni í gegnum önnur hlutafélög sem þetta fyrirtæki mundi stofna eða taka þátt í erlendis. Ég sé ekkert slæmt við það. Með þessu er ég þó ekki að lýsa blessun minni yfir þessu frumvarpi heldur er ég reiðubúinn til að skoða það opnum huga.

Hin gerð fyrirtækja sem ríkið rekur og á og ég tel að hlutafélagaformið falli ekki vel að eru stofnanir eins og sú sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson þekkir manna best og rekur fyrir hönd okkar skattborgaranna, stofnanir eins og hjúkrunarheimili, öldrunarheimili sem fá og sækja sitt rekstrarfé nánast að öllu leyti frá hinu opinbera. Um það gilda allt aðrar reglur og ekki orð um það meir.

Hins vegar fannst mér hæstv. ráðherra vera fullsakleysislegur í framan þegar hann hélt því fram gagnvart þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa andæft hlutafélagshugmyndinni að þetta væri niðurstaða stýrihóps og nefndar sem hefði skoðað mismunandi valkosti. Af máli hæstv. ráðherra mátti skilja að ekki hefði sá andvaralausi og saklausi maður sem gegnir embætti ráðherra núna með nokkrum hætti ýtt hlutafélagsforminu að stýrihópnum. Þó kemur það sérstaklega fram í greinargerðinni að þessum hópi var falið það verkefni að kanna með hvaða hætti ætti að reka þessa starfsemi í framtíðinni en honum var líka falið annað. Honum var falið alveg sérstaklega að kanna hvort hlutafélagaformið ætti ekki við.

Af því að ég hef gegnt stöðu ráðherra eins og hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson þá þekki ég pínulítið hvernig svona gengur fyrir sig. Það er einfaldlega þannig að þegar ráðherra kallar til sín menn sem hann velur til vandasamra verka og segir við þá, hvort heldur er af hendingu, tilviljun eða undir einhverju yfirskini að það væri æskilegt eða ekki ótilhlýðilegt að niðurstaðan yrði ekki fjarri einhverjum tilteknum leiðarenda sem hann hugsanlega getur teiknað upp fyrir viðkomandi hóp þar sem þeir sitja í sófanum rauða í skrifstofunni hjá honum. Ég held að hæstv. ráðherra hafi kannski gert sér upp fullmikið sakleysi í þessu efni.

Ég kem hér þó aðallega til að spyrja út í tvennt. Annað er svo sem ekki veigamikið en það er talað sérstaklega um það í greinargerðinni og það speglar hversu vönduð hún er að ýmsu leyti, að það er verið að aðskilja tvenns konar starfsemi, m.a. til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Önnur er skilin eftir hjá ríkinu og hin er gerð að hlutafélagi sem að vísu ríkið á. Það er undirstrikað sérstaklega að þetta er gert til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Ég hegg eftir því að í 14. gr. þar sem verið er að leggja til ákveðnar breytingar á loftferðalögunum sem tengjast þessu er reifuð sú staða sem kynni að koma upp. Ef sá sem rekur flugleiðsögu eða flugvelli þarf á landi að halda og það land er ekki falt, það sem í boði er í frjálsum samningum, þá á að grípa til eignarnáms eins og eðlilegt er við þær aðstæður en þá eru hagsmunaárekstrarnir ekki lengur nein fyrirstaða. Sá sem á að kveða upp úrskurð er handhafi hlutabréfsins. Það er handhafi hins eina hlutabréfs sem er hæstv. samgönguráðherra í þessu máli en það þarf samþykki hans fyrir eignarnáminu.

Ekki skiptir þetta kannski neinu meginmáli varðandi grundvallaratriði í þessu frumvarpi en mér finnst ákaflega hæpið að það sé samgönguráðherra sem kveður upp slíkan úrskurð. Af því gæti maður gagnályktað að það væri óæskilegt að hæstv. samgönguráðherra, hver sem hann er hverju sinni, færi með handhöfn hlutabréfsins. Ég hygg að það sé nákvæmlega þessi staða sem hugsanlega getur komið upp sem veldur því að til skamms tíma var það reglan af hálfu Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórna, m.a. ríkisstjórnar sem ég sat í með Sjálfstæðisflokknum, að það væri fjármálráðherrann sem færi með hlutabréfin. Það er beinlínis gert til þess að komast hjá m.a. hagsmunaárekstrum af þessu tagi.

En þessi ríkisstjórn hefur náttúrlega villst svo illilega og langt af leið að hún er löngu búin að missa sjónar (Gripið fram í.) á gömlu grundvallarreglum sem fyrrverandi leiðtogar Sjálfstæðisflokksins — og ég ætla ekki að segja endilega leiðtogar lífs ýmissa góðra forustumanna sem hér eru í salnum en þeir eru allt í einu í munni hæstv. samgönguráðherra orðnir ritstjórar úti í bæ. Þetta var fyrra atriðið.

Hitt er annað sem er að finna í þessari sömu grein, h-lið 14. gr. Þar brýst einkavæðingarvillidýrið í Sjálfstæðisflokknum fram í allri sinni nekt og hroða. Þar er verið að greina frá því að við þurfum með einhverjum hætti að geta starfrækt leitarstarfsemi við ákveðin skilyrði þegar í nauðir rekur. Þetta þekkjum við Íslendingar allir. Þetta er eitt af því sem hefur einkennt okkar samfélag. Við lifum í návígi við háska, við erum sæfarendur og flugfarendur og við búum við erfið náttúruskilyrði. Og við erum fámenn þjóð. Það þýðir að við höfum þurft að reiða okkur á þátttöku almennings og almannasamtaka sem af fórnfúsum og einlægum huga hafa lagt mikið starf af höndum við að byggja upp björgunarsveitir til að leita að fólki í nauð. Ekki hef ég tölu á þeim fjölda mannslífa sem þetta framtak og þessi samvinna, sem ég auðvitað vil kenna við jafnaðarhugsjónina, hefur bjargað.

Það kemur fram í þessum málslið að inn í lögin um loftferðir og lög um rannsókn flugslysa á að skjóta að tillögu hæstv. ráðherra svofelldu ákvæði, með leyfi forseta:

„Flugmálastjórn getur með samningi falið félagasamtökum eða fyrirtækjum að hafa umsjón með framkvæmd leitarstarfa að hluta til eða öllu leyti.“

Þetta kemur mér býsna spánskt fyrir sjónir.

Ég hef auðvitað ekkert á móti þeirri árangursríku hefð sem felst í því að við tilteknar aðstæður eru það félagasamtök sem taka að sér skipulag og framkvæmd björgunarstarfa. En ég hnýt óneitanlega um það þegar kemur inn þessi setning með fyrirtækjum. Ég veit ekki alveg hvað í því felst. Hugsanlega er það einhvers konar samræming af hálfu annars hlutafélags sem nú þegar er til ef ég man rétt undir stjórn hæstv. samgönguráðherra eða félaga hans í ríkisstjórninni og heitir Neyðarþjónustan, ég man ekki hvað hún heitir. Að minnsta kosti er verið að fara inn á nýjar brautir.

Þýðir þetta að hægt sé að bjóða út leitarstörf, framkvæmd björgunarstarfa og hugsanlega einkavæða hana? Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra skýrði það í stuttu máli hér á eftir. Vonandi er niðurstaðan og svarið ekki með þeim hætti að það geri hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs alveg spinnegal en þetta er hráefni í það sýnist mér.