132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vakti athygli á 14. gr. þessa frumvarps þar sem m.a. er fjallað um eignarnámsákvæði sem er mjög mikilvægt atriði einmitt í sambandi við slíka mannvirkjagerð í þágu almennings í landinu sem flugvellir eru. Þetta er landfrek starfsemi. Það þekkjum við úr þessum sóknum sem við erum hér í.

Ég lít svo á að það ógni út af fyrir sig ekki hagsmunum þeirra sem fyrir eignarnáminu verða þó að samgönguráðherrann í þessu tilviki heimili eignarnámið vegna þess að lögin um eignarnám eru mjög skýr og aðferðafræðin við eignarnám er afskaplega nákvæm og mikilvæg jafnframt. Ég tel út af fyrir sig að það ákvæði, b-liður 14. gr., ætti ekki að þurfa að leiða til þess að samgönguráðherra geti ekki farið með hlutabréfið í þessu hlutafélagi og rétt að árétta það sem kom fram hjá hv. þingmanni að til þess að breyting verði á þarf sérstaka lagabreytngu. Sala á þessu hlutafé er óheimil samkvæmt 1. gr. frumvarpsins — og vantar nú hv. þm. Jón Bjarnason til að hlusta á það. (JBjarn: Nei, nei, ég er hérna.)

Hvað varðar h-lið 14. gr. um samninga við félagasamtök eða fyrirtæki vegna leitarstarfsemi er það rétt athugað hjá hv. þm. að m.a. vegna þess að tryggja þarf að (Forseti hringir.) félag eins og Neyðarlínan eða Flugfjarskipti geti komið að þessu þá er þetta ákvæði nauðsynlegt.