132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn vitnar hv. þingmaður í þessa setningu sem dregin var fram í áður umræddu bréfi. Ég vil bara minna á að hér erum við að fjalla um að áfram verði ríkisstofnun sem verður rekin undir nafni Flugmálastjórnar Íslands. Þar hafa starfsmenn öll þau réttindi sem ríkisstarfsmenn hafa.

Í þessum frumvörpum um hlutafélagið og Flugmálastjórn Íslands er sérstaklega tekið fram að það skuli ráða alla starfsmenn sem eru starfandi á vegum Flugmálastjórnar Íslands áfram og gefa þeim færi á að starfa áfram, og tekið alveg sérstaklega fram og ítrekað, og það gerði ég í ræðu minni, að við þyrftum að tryggja hagsmuni starfsfólksins. Mér finnst því ekki ástæða til þess að hv. þingmaður reyni að gera það tortryggilegt.

Þegar ég tala um að draga úr kostnaði og að við verðum að standast samkeppnina er mikilvægasti þátturinn í því hæfni starfsmannanna og hæfni þeirra til þess að búa svo um hnútana að kerfin sem notuð eru verði sem hagkvæmust, vísindin séu nýtt og þekkingin sé nýtt til þess að draga úr kostnaðinum en ekki endilega að fækka starfsmönnum. Yfirleitt er það nú þannig að þeim mun meiri sem tæknin verður, og ég tala nú ekki um á sviði upplýsingatækninnar, verða fleiri starfsmenn að sinna mikilvægari og markvissari störfum þannig að við munum fyrst og fremst leggja áherslu á að nýta upplýsingatæknina, nýta þekkingu starfsmannanna til þess að gera þjónustuna ódýrari. Það er hið mikilvæga verkefni okkar og þess vegna eru fyrirtæki eins og hlutafélögin, sem eru núna í eigu Flugmálastjórnar eins og fyrir fjarskipti svo mikilvæg. Þar er hópur af hámenntuðum sérfræðingum (Forseti hringir.) í því dag og nótt að leggja á ráðin um hvernig hægt verði að gera þessa hluti best.