132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[21:59]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst er til að taka vegna fyrirspurnar hv. þingmanns að hér er að sjálfsögðu um að ræða íslensk skráð skip í hinni íslensku skipaskrá. Við veðsetjum væntanlega ekki hér hjá sýslumannsembættum skip sem eru skráð hjá erlendum aðilum og eru eign þeirra þannig að það er ekki um það að ræða.

Að hinu leytinu er það þannig að skip eru yfirleitt skráð þar sem eigendur þeirra eru þannig að þau eru bara á siglingu milli embætta í dag þannig að það er ekki hægt að staðsetja skipin hjá einu embætti fremur en öðru. Eitt árið geta verið mörg skip sem tilheyra tilteknu sýslumannsembætti og næsta ár kannski ekkert þannig að það hefur ekki verið á vísan að róa með það verkefni hjá sýslumannsembættunum að sinna þessum skráningum. Með þessari breytingu er verið að reyna að einfalda, gera þetta öruggara og staðfesta þetta verkefni hjá einu ákveðnu embætti. Ég tel að það sé af hinu góða, að einfalda hlutina og gera þá öruggari eins og kom fram í ræðu minni og ég tel að sýslumannsembættið á Ísafirði eigi heiður skilinn fyrir frumkvæði sitt og ábendingar um þetta skynsamlega fyrirkomulag og ástæða er til þess að vekja sérstaklega athygli á því og athygli á því góða samstarfi sem þarna er á milli Siglingastofnunar og sýslumannsembættisins um að koma á þessari breytingu og eins og kom fram hjá mér hafa bæði dóms- og kirkjumálaráðuneytið og samgönguráðuneytið unnið að þessu í góðu samstarfi við þessi embætti. Ég tel því að þetta sé mjög skynsamleg og góð aðgerð.