132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga, um breyting á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa, sem hér er flutt, er sjálfsagt um margt hið besta mál við fyrstu yfirsýn. Þarna er verið að færa þætti saman og gera þá skilvirkari, eftir því sem hæstv. ráðherra lýsti því. Við fyrstu sýn sýnist mér alveg hægt að taka undir þau orð ráðherra. Vitnað var í þetta verkefni hjá sýslumanninum á Ísafirði og ég hygg að það sé hið besta mál. Ég tel að sýslumaðurinn á Ísafirði geti vel gert þetta og þetta verði til að efla opinber störf þar án þess ég geri mér nokkra grein fyrir hvort þetta hafi einhver áhrif á starfsemi annarra embætta. Í fljótu bragði sýnist mér að þessi atriði geti tæknilega séð vel verið á réttri braut.

Ég vil hins vegar draga athyglina að öðru atriði í sambandi við skráningu skipa og inna hæstv. ráðherra eftir því. Ég vil vekja athygli á því að líklega er ekki nokkurt kaupskip nú skráð hér á landi. Ég hygg að svo sé ekki. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvað sé verið að gera varðandi kaupskipaútgerðina hér á landi. Hún hefur nú á síðustu mánuðum og missirum verið að fara með skráningu sinna skipa úr landi. Nú síðast, 1. mars, held ég að ákveðið hafi verið að síðustu skipin færu endanlega burt héðan. Þessi tvö aðalskipafélög okkar hafa skráð skip sín í Færeyjum en að öðru leyti eru skip skráð hingað og þangað um heiminn. Það væri kannski æskilegra að sýslumaðurinn á Ísafirði fengi það hlutverk að skrá þessi íslensku kaupskip.

Við höfum fjallað um kaupskipaskráninguna, bæði í umræðum hér á Alþingi og í hv. samgöngunefnd. Þar hefur komið fram að einhver þvergirðingur sé af hálfu fjármálaráðuneytisins í að ganga til nauðsynlegra samninga á lagalegum grunni kaupskipaskráningar, á rekstri kaupskipaútgerðarinnar og einnig að því er lýtur að ýmsum starfskjörum sjómanna eða farmanna á kaupskipum.

Hvorki gengur né rekur í samgöngunefnd með þetta mál. Fyrir skömmu kom hingað fulltrúi frá sænska verkalýðssambandinu eða þeim aðilum sem fara af hálfu verkalýðshreyfingarinnar þar með málefni starfsmanna á kaupskipaflotanum. Hann lýsti því hvernig þetta hefði verið gert í Svíþjóð. Þar hefðu þeir breytt um stefnu því kaupskipin voru öll að fara úr landi með skráningu sína og heimilisfesti. Þá var tekin þar upp breyting sem virkaði þannig að hægt og bítandi komu kaupskipin til baka. Það var allra hagur, bæði sænska ríkisins, sænskra skattborgara og einnig skipafélaganna og farmanna sem á skipunum unnu. Þar giltu sömu lög og sami réttur gagnvart skipverjunum óháð þjóðerni.

Önnur útfærsla er svo í öðrum löndum. Í Færeyjum er notuð önnur útfærsla. Sömuleiðis í Noregi og í Danmörku og Finnlandi. En allar þessar þjóðir eru með aðgerðir í gangi til að tryggja að heimilisfesti kaupskipaflota síns sé skráð í landinu. Menn vitna stundum til þess að þeir séu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og ESA-dómstólnum og þess vegna megi ekki grípa til ívilnandi aðgerða í fyrirtækjarekstri en einmitt varðandi rekstur kaupskipaútgerðar hafa Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, stjórnunaraðilar þar, hvatt til að ríki taki upp ívilnandi aðgerðir til að tryggja heimilisfesti kaupskipaflotans í sínu landi. Það hlýtur að vera hið alvarlegasta mál sem við stöndum frammi fyrir að við, þessi eyþjóð, þar sem allir meginflutningar til og frá landinu eru sjóleiðis, skulum ekki eiga eitt einasta kaupskip skráð hér. Það er búið að leggja niður strandflutningana, illu heilli, sem við vildum líka taka upp. (Gripið fram í.)

Það er dapurt, herra forseti, hvað hæstv. samgönguráðherra hefur reynst slappur í þeim efnum. (Gripið fram í.) Einmitt þegar við erum að tala um orkusparnað og í þessu gríðarlega hækkandi orkuverði hefðu enn þá sterkari rök átt að vera fyrir því að menn tækju upp strandflutningana. En við getum tekið það upp þó það sé hluti af þessu dæmi.

Í næsta máli er verið að tala um réttindi og kröfur sem á að gera til skipstjórnarmanna. Kröfur sem á að gera til náms í stýrimannaskóla og í sjómannaskóla. Staðreyndin hefur orðið sú að í hinum og þessum löndum, sem hafa lent í svipuðu og við erum að lenda í, er ekki einu sinni grundvöllur til að reka sjómannaskóla. Noregur er kominn með sinn sjómannaskóla alla leið til Filippseyja. Það er ekki lengur sjómannaskóli í Noregi. Við gætum staðið frammi fyrir því sama hér, að við hefðum ekki grundvöll til að reka hér skóla fyrir okkar sjómenn og okkar yfirmenn á kaupskipum eða fiskiskipum ef svo heldur fram sem horfir. Þetta er eitt brýnasta málið varðandi rétt og skyldur kaupskipa og reyndar allrar skipaútgerðar hér að fundinn sé grundvöllur svo við höldum skipunum hér í landi.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra, sem fer með þennan málaflokk fyrir hönd Alþingis, hvernig þessi mál standa. Ég hef heyrt hann fara hér á Alþingi um það fögrum orðum að hér þurfi að vera það skipulag að kaupskipin eigi hér heimilisfesti. Þau orð hafa ekki orðið neins megnug heldur þvert á móti. Það er ekkert kaupskip eftir núna.

Við höfum líka rætt þetta í samgöngunefnd og ég vil heyra hvað hv. formaður samgöngunefndar, Guðmundur Hallvarðsson, sem ítrekað hefur tekið þessi mál upp þar og á Alþingi, og lagt áherslu á að eitthvað verði að gera í málunum, hefur að segja. En þetta er líklega annað eða þriðja árið sem þetta hefur verið rætt á þessum grunni og ekkert gerist. Ég er hér t.d. með bréf, dagsett 7. júlí 2004, sem er stílað á Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra og Guðmund Hallvarðsson, formann samgöngunefndar Alþingis, sem er undirskrifað af Samtökum atvinnulífsins, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Félagi skipstjórnarmanna og Vélstjórafélagi Íslands. Bréfinu lýkur á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Skorað er á íslensk stjórnvöld að grípa til ráðstafana til að styrkja grundvöll rekstrar kaupskipa á Íslandi og óska Samtök atvinnulífsins og stéttarfélög sjómanna eftir fundi með samgönguráðherra og fjármálaráðherra sem allra fyrst þar sem þetta málefni og þeir möguleikar sem þar eru verða ræddir.“

Í bréfinu eru síðan raktir stuttlega þeir gríðarlegu hagsmunir sem eru í húfi fyrir utan öryggi í samgöngum þjóðarinnar og réttindum og kjörum starfsmanna á fiskiskipum.

Það hefði nú verið huggulegt ef hæstv. samgönguráðherra hefði getað lagt það fram hér um leið og þetta frumvarp, að ekki væri einungis verið að leggja fram hér þetta litla plagg um skráningu og þinglýsingu skipa. Það hefði ekki verið amalegt að í hóp þessara skipa sem á að skrá á Ísafirði gætu bæst 40–50 kaupskip sem nú sigla á vegum íslenskra aðila en eru með heimilisfesti og skráningu í öðrum löndum.

Herra forseti. Þetta er mikið alvörumál, mikið þjóðþrifamál, sem ekkert virðist gerast í. Ég vil því nota tækifærið og spyrja ráðherra hvar þessi mál standa.