132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:35]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli. Við kölluðum fulltrúa allra hagsmunaaðila, útgerðar, sjómanna, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis og fórum yfir stöðu mála í haust. Þá kom berlega í ljós að embættismaður fjármálaráðuneytisins, ráðuneytisstjórinn, taldi að við færum á skjön við íslenskt skattakerfi með því að ætla að breyta skattalegu umhverfi íslenskrar kaupskipaútgerðar líkt og önnur Norðurlönd hafa þegar gert.

Eins og ég sagði áðan er síðan kominn nýr fjármálaráðherra og í viðtali við mig lýsti hann því yfir að aðilar í ráðuneytinu væru að skoða þetta mál með það í huga að finna möguleika á að fara sömu leið og hin Norðurlöndin hafa farið. Það hefur orðið stefnubreyting í fjármálaráðuneytinu og ég vænti þess að þeir aðilar sem þar ráða og halda um stjórnvölinn innan fjármálaráðuneytisins, þ.e. ráðuneytisstjórinn sjálfur og aðrir, hafi fengið þær upplýsingar að rétt væri að stíga á stokk og skoða þetta til hlítar.