132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Álbræðsla á Grundartanga.

726. mál
[22:58]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

(Gripið fram í: Ein álbræðslan enn.) Herra forseti. Ég heyri að hér er um áhugaverðara mál að ræða ef marka má viðbrögð í salnum en hér er samt, held ég, um tiltölulega lítið mál að ræða. Það er frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

Í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 1. júní 2005 kemur fram það mat stofnunarinnar að íslenskum stjórnvöldum beri að grípa til viðeigandi aðgerða til að gæta þess að samningar við Norðurál ehf. feli ekki í sér óeðlilega mismunun á ríkisstyrkjum til aðila. Stofnunin taldi að breytinga væri þörf bæði á fjárfestingasamningi íslenskra stjórnvalda og Norðuráls ehf. sem og á lögum nr. 62/1997 og í ljósi þessa úrskurðar er lagt til að felldur verði niður B-liður 1. mgr. 6. gr. laganna sem fjallar um álagningu fjármagnstekjuskatts á arð, en í gildandi lagaákvæði er kveðið á um að 5% tekjuskattur skuli lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögunum að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattári fyrir greiðslu arðs.

Það hefur ekkert reynt á þetta ákvæði í framkvæmd en niðurfelling þess leiðir til þess að framvegis munu gilda um þetta mál almennar skattareglur eða þá ákvæði tvísköttunarsamninga eftir því sem við á. Það er einnig lagt til að orðið „útflutningur“ falli niður í fyrirsögn 9. gr. enda eru hvorki tollar né vörugjöld lögð á útflutning.

Eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins hefur í kjölfar samningaviðræðna um stækkun Norðuráls komið fram ósk frá fulltrúum fyrirtækisins um breytingar á samningi sem kallar á breytingar á lögunum. Annars vegar er um að ræða breytingu á rekstrarformi, en Norðurál er nú einkahlutafélag en ekki hlutafélag. Hins vegar er lagt til að lögunum verði breytt til samræmis við ákvæði laga um álverksmiðju á Reyðarfirði, en þar er kveðið á um að félagið skuli undanþegið breytingum sem kunna að verða á skattalagaákvæðum um frádrátt vaxtakostnaðar. Með þessari breytingu er aðstaða félaganna jöfnuð hvað þetta varðar. En að mínu mati er það svo að vaxtakostnaður hlýtur ávallt að vera frádráttarbær hjá fyrirtækjum í atvinnurekstri. Þannig eru alþjóðlegar reglur og við hljótum að miða við það.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar orðum um þetta frumvarp og legg til að frumvarpinu verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.