132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:02]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum stefnt að aukinni þátttöku í friðargæslustörfum á erlendri grundu. Í nóvember 2000 skilaði starfshópur sem ríkisstjórnin skipaði tillögum um aukna þátttöku Íslands í friðargæslu á vegum alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Aukin þátttaka Íslands í alþjóðlegum friðargæsluverkefnum er í samræmi við þá stefnu íslenskra stjórnvalda að Íslendingar taki í meira mæli á sig ábyrgð gagnvart umheiminum og alþjóðasamfélaginu. Á liðnu ári störfuðu að jafnaði um 25 Íslendingar á vegum utanríkisráðuneytisins að friðargæslustörfum í Afganistan, Írak, Srí Lanka, Bosníu og Hersegóvínu og Kosovo-héraði.

Opinber þátttaka Íslendinga í friðargæslustörfum á alþjóðavettvangi hófst fyrir rúmum 50 árum þegar tveir íslenskir lögreglumenn fóru til starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna í Palestínu á árunum 1950 og 1951. Frá þeim tíma hafa íslenskir sérfræðingar starfað að friðargæslu og uppbyggingarstarfi á átakasvæðum á vegum íslenskra stjórnvalda víða um heim, einkum á vegum Sameinuðu þjóðanna, en undanfarin ár einnig á vegum Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópusambandsins, auk norræna eftirlitsverkefnisins á Srí Lanka, Monitoring Mission. Frá árinu 1994 hafa á annað hundrað Íslendingar starfað að friðargæslu erlendis. Íslenskir friðargæsluliðar eru borgaralegir sérfræðingar og hafa einkum komið úr röðum lögreglumanna, lækna og hjúkrunarfræðinga. Einnig hafa farið til starfa verkfræðingar, fjölmiðlafólk, lögfræðingar, sagnfræðingar, flugumferðarstjórar og slökkviliðsmenn. Umsjón með íslensku friðargæslunni hefur verið í höndum sérstakrar skrifstofu í utanríkisráðuneytinu.

Markmiðið með lagafrumvarpi þessu, virðulegi forseti, er að skjóta styrkari lagastoðum undir þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu og kveða skýrt á í lögum um ýmis atriði sem til þeirrar starfsemi heyra, m.a. réttarstöðu friðargæsluliða. Rétt er að vekja athygli á því að frá umboðsmanni Alþingis hafa borist ábendingar um að rétt sé að setja sérstök lög um þessa starfsemi. Við samningu frumvarpsins var m.a. höfð til hliðsjónar löggjöf um friðargæslu í öðrum norrænum ríkjum. Um margt eiga þó eðlilega sérsjónarmið við um íslenska friðargæsluliða enda tekur löggjöf um friðargæslu annars staðar á Norðurlöndum mið af því að þar er starfræktur her en ekki hér á landi.

Grunnhugmynd friðargæslu er að bregðast við ófriði eða ófriðarblikum með margþættum aðgerðum, bæði áður en átök brjótast út og eftir að stillt hefur verið til friðar. Friðargæsla tekur þannig til ýmiss konar fjölþjóðlegra aðgerða sem miða að því að koma í veg fyrir átök, koma á friði og skapa skilyrði til að varanlegur friður megi ríkja. Framangreindar aðstæður á starfsvettvangi friðargæslu móta inntak ákvæða þessa frumvarps.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.