132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:10]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki fært að binda þessar heimildir í lögum við friðargæsluverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna og NATO eins og hv. þingmaður lagði til, að mér skildist. Ég nefndi hér Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og norrænt samstarf en þar erum við í sérstöku verkefni núna á Srí Lanka, sem hefur reyndar verið töluvert í fréttum. Einnig höfum við tekið þátt í verkefnum á vegum Evrópusambandsins. Við höfum lítið sem ekkert verið í verkefnum enn sem komið er á vegum Sameinuðu þjóðanna, þó að það standi til að fara út í það í ríkari mæli.

Mér finnst eðlilegt að um þetta sé settur almennur rammi en ég tel óeðlilegt að þrengja hann frekar en gert er ráð fyrir í þessum frumvarpsdrögum. Upp geta komið aðstæður þar sem kann að þurfa bregðast skjótt við. Hins vegar er líka nauðsynlegt að hafa það í huga að við höfum ekki verið að senda okkar fólk inn á svæði þar sem áhætta er mest. Við höfum reynt að takmarka verkefnin þannig að okkar fólk, sem er auðvitað borgaralegir sérfræðingar, sé ekki á mestu hættusvæðunum heldur annars staðar þar sem það getur gert gagn með sérþekkingu sinni við uppbyggingu og friðarumleitanir af öllu mögulegu tagi.