132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp við 1. umr. um málið. Eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra var þetta til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins og kom að því búnu hingað aftur inn í þingsal, en ég vil aðeins vekja athygli á örfáum atriðum.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að setja lög um réttindi starfsmanna sem ráðast til friðargæslunnar. Í 13. gr. frumvarpsins er kveðið á um að íslenskir friðargæsluliðar skuli vera tryggðir vegna slysa sem þeir kunna að verða fyrir í starfi og utan starfs á erlendri grundu meðan ráðningarsamningar við þá eru í gildi. Við munum öll eftir því hvað henti okkar menn í Afganistan á sínum tíma þegar álitamál varð uppi um tryggingar þeirra.

Síðan er hitt sem við hljótum að þurfa að skoða, það er ekki aðeins vikið að réttindum heldur einnig réttindamissi í þessu frumvarpi því að það er kirfilega tekið fram í nokkrum lagagreinum að ákvæði um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gildi ekki um störf íslenskra friðargæsluliða á erlendri grundu og verkafallsrétt eiga þeir aldeilis ekki að hafa. Þetta er náttúrlega atriði sem við eigum eftir að taka til skoðunar.

Síðan ef menn fara að slá á létta strengi þá verð ég að vera aðeins ósammála hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur þegar hún lagði áherslu á að við ættum að sinna d-liðnum í 1. gr. laganna þar sem vikið er að því að Íslendingar stuðli að eða leggi fram sérfræðikunnáttu um uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði. Ég ætla bara að vona að ekki verði sendir fulltrúar úr núverandi ríkisstjórn til að kenna mönnum efnahagsstjórn.

En að öllu gríni slepptu er hér háalvarlegt mál á ferðinni. Fram kom réttilega í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að við verjum rúmum hálfum milljarði til þessa málaflokks á ári hverju og ég lít svo á að við eigum að láta til okkar taka í friðar- og uppbyggingarstarfi um heiminn en við eigum að vanda vel til verkefnanna. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar að því leyti að það er eðlilegt að slíkt komi til ákvörðunar á Alþingi hverju sinni hvaða verkefni eru valin. Hvers vegna skyldi það nú vera? Jú, það hefur viljað brenna við og meira en brenna við, það er nánast viðtekin regla að Íslendingar, íslenska ríkisstjórnin og núverandi ríkisstjórn vill helst að við gerumst eins konar hreinsunardeild hjá NATO og Bandaríkjaher. Þetta er bara staðreynd sem ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við. Ég minnist þess þegar ekki stóð á fjárframlögum til verkefna á vegum NATO að þá var skammtað úr hnefa til fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan, það er ekki langt um liðið frá þeim atburðum.

Þetta eru þau atriði sem ég vil helst nefna og síðan náttúrlega hitt að þótt staðhæft sé í athugasemdum með frumvarpinu að Íslendingar hafi fyrst og fremst starfað sem borgaralegir sérfræðingar og einvörðungu sem borgaralegir sérfræðingar, komið úr röðum lögreglumanna, lækna og hjúkrunarfræðinga, þá hafa mörkin verið harla óljós á borgaralegu starfi annars vegar og hervæddu starfi hins vegar. Við höfum öll séð myndir af íslenskum friðargæsluliðum búnum vopnum, þungvopnuðum á flugvellinum í Kabúl í Afganistan. Ég held að við minnumst öll slíkra mynda. Við erum því komin ansi nærri því að setja hér á fót her og ekki síst þegar þessu liði er beitt í tengslum við hernaðaraðgerðir eins og var í Afganistan og Írak, það voru a.m.k. fyrirheit um það á sínum tíma að við tengdumst svokölluðu uppbyggingarstarfi á vegum Bandaríkjahers í Írak. Þetta kom til umfjöllunar hér á þinginu.

Ég ítreka, hæstv. forseti, það er mjög mikilvægt að Íslendingar láti til sín taka í uppbyggingarstarfi, í friðarstarfi og það er alveg hárrétt sem hér hefur verið bent á við umræðuna að þar eru, mér liggur við að segja því miður, sorglega margir valkostir. Við eigum að sjálfsögðu að láta til okkar taka á þeim sviðum þar sem við höfum sérþekkingu, við höfum lækna og hjúkrunarfræðinga, og það eru margvísleg uppbyggingarstörf sem þess vegna gætu tengst vatnsveitum, hitaveitum og störfum af slíku tagi, auk að sjálfsögðu hvers kyns mannúðar- og neyðaraðstoðar við flóttafólk og fórnarlömb átaka eða náttúruhamfara sem reyndar er tiltekið sem eitt af verkefnum friðargæslunnar.

Ég ætla að láta þessari ræðu minni lokið, þetta eru aðeins örfáar athugasemdir hér við 1. umr. um málið sem síðan á án efa eftir að fá góða og vandaða umfjöllun í utanríkismálanefnd þingsins.