132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:53]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég hef nú fundað í nefndum frá klukkan hálfníu í morgun til að verða hálftvö. Það voru kvöldfundir í gær, það eru fundir alla daga og það er verið að dengja inn nýjum frumvörpum fyrir þingið. Ég hef þann hátt á að lesa fyrir tíma, hef alltaf gert og starfa þannig sem lögmaður, en mér er gert ókleift að starfa þannig hér á þingi. Við þessar aðstæður verða lagasetningar mistök, það er óhjákvæmilegt. Og þau kunna að verða í ríkisútvarpsfrumvarpinu.

Ég vil taka það skýrt fram að það er greinilegt samspil á milli fjölmiðlafrumvarpsins — sem vel að merkja er vel unnið — og ríkisútvarpsfrumvarpsins, sem er því miður ekki vel unnið, það er hægt að vinna það miklu betur. Það eru atriði í þessu frumvarpi sem valda mér miklum áhyggjum.

Í fyrsta lagi menningararfleifðin, sem er metin á núll og hægt er að ráðstafa af einum manni, útvarpsstjóra. Ég sætti mig aldrei við það.

Í öðru lagi eru áhöld uppi um það hvort stjórnarskrárvarin eignarréttindi starfsmanna séu varin, að það sé ekki verið að skerða þau. Þá á ég við biðlaunaréttinn og þá á ég við lífeyrisréttindi þeirra. Hér hafa menn þungar áhyggjur af lífeyrisréttindum þingmanna, sem eru tíu, en þetta varðar hundruð manna.

Í þriðja lagi eru höfundarréttarvandamálin óleyst.

Í fjórða lagi stangast 1. mgr. 4. gr. frumvarps um Ríkisútvarp hf. á við breytinguna sem var gerð á fjölmiðlafrumvarpinu í síðustu stigum. Það þarf að skýra þær saman, þær eru ekki ljósar, þær kalla á lögskýringu. Það er algjörlega óviðunandi líka. Ég vil ekkert standa í því að samþykkja lög hér á Alþingi sem kalla síðar á deilur fyrir dómstólum. Ef við getum tryggt að málin séu þannig leyst að ekki komi til ágreinings þá eigum við að gera það og frumvarpið um Ríkisútvarpið kallar á þá vinnu.