132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:55]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það sem hefur gerst í þessu máli er að í frumvarpi að öðrum lögum, fjölmiðlafrumvarpinu, hafa verið sett ákvæði um Ríkisútvarpið, mjög mikilvæg ákvæði um starfsemi Ríkisútvarpsins og skipulag þess sem ekki er að finna í því frumvarpi sem nú er í þeirri óvenjulegu stöðu að vera í nefnd á milli 2. og 3. umr. að kröfu stjórnarandstöðunnar, rökstuddri kröfu stjórnarandstöðunnar. Þetta gerist þvert á þær túlkanir sem hafa komið frá fulltrúum menntamálaráðherra sem kallaðir hafa verið fyrir nefndina, sem einmitt töldu að 4. greinin í því frumvarpi sem fyrir liggur, veitti Ríkisútvarpinu heimild til þátttöku í öðrum hlutafélögum sem nú á að banna í fjölmiðlafrumvarpinu.

Ég ætla ekki að hafa skoðanir á þessu máli hér en mér finnst furðulegt að standa uppi sem þingmaður í menntamálanefnd og fá þetta svona á mig úr sama ráðuneytinu frá sama hæstv. ráðherranum sem aldrei þessu vant er ekki staddur hér á þinginu. Og það gerist fleira. Það koma í ljós — vissulega styrkist sumt, vissulega var gott að fá fulltrúa Ríkisendurskoðunar, Sigurð Þórðarson, á fund okkar í dag, djarfan og kátan og ákafan hjörs í þrá, eins og sumir segja — en það hefur líka komið í ljós eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði að það er túlkunaratriði hvort selja má menningararfinn í söfnum Ríkisútvarpsins og einn af höfundum frumvarpsins sagði að sennilega væri það svo að samþykktri breytingartillögu meiri hlutans nú að efnið mætti nota í samkeppnisverkefnum.

Við vitum hvað kemur út úr þessu. Það koma málaferli, bæði hér innan lands og við Evrópu og það verður áfram ófriður um málið. Það er greinilega það sem stjórnarmeirihlutinn stefnir að, að vera hér með næstu tíu, tuttugu árin allt í ófriði um Ríkisútvarpið, sennilega til þess að sölumönnunum Sigurði Kára Kristjánssyni og Birgi Ármannssyni hv. þingmönnum takist að lokum að eyðileggja Ríkisútvarpið.