132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Nefndadagar.

[13:57]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að ræða um fundarstjórn forseta og reyna að fá upplýsingar um nefndadaga, hvenær þeir gætu orðið, í ljósi þeirrar umræðu sem hér hefur verið og annarrar. Mér finnst núna miðað við þá umræðu, eins og ég sagði áðan, sem hér var um Ríkisútvarpið að nauðsynlegt sé að fá það fram, m.a. til að koma í veg fyrir eins og hv. þm. Atli Gíslason nefndi það, lagasetningarmistök.

Því tek ég þetta hér upp um þennan lið, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að hér hefur komið fram með Ríkisútvarpið að eftir kröfu frá stjórnarandstöðunni var málið tekið til nefndar, rætt þar í dag og mér heyrist hér að ýmislegt hafi komið þar fram þannig að það virðist sem farið sé að stagbæta frumvarpið, reyna að setja þar eitthvað inn.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, minni ég á það að fyrr í vetur vorum við að ræða um jarðrænar auðlindir, það voru miklar umræður um það mál líkt og um Ríkisútvarpið. Það endaði með því, virðulegi forseti, að hæstv. forseti þingsins tók málið til sín og skoðaði hvað hægt væri að gera. Í samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu varð sú niðurstaða að málið færi aftur til nefndar. Og hvað gerðist þar, virðulegi forseti? Misskilningur var leiðréttur og komið í veg fyrir það sem hv. þm. Atli Gíslason talaði um áðan, lagasetningarmistök. Því frumvarpi var breytt og komst á samkomulag að mestu sem leiddi m.a. til nefndarskipunar og málið fékk farsæla lausn. Að vísu kom svo bréf, eins og ég hef áður sagt, frá iðnaðarráðuneytinu, um nefndarskipunina sem sent var til baka frá þingflokki Samfylkingarinnar en svo kom leiðrétting úr ráðuneytinu þar sem skilningur þingflokks Samfylkingar var sagður réttur og því var svo breytt. Það endaði síðan með því, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra kom og bað þingið afsökunar á þeim misskilningi og mistökum sem áttu sér stað í því frumvarpi.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, er rétt að taka líka hið margfræga vatnalagafrumvarp, þegar stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ætluðu að einkavæða vatnið. Þá voru hér líka miklar og heitar umræður og deilur sem enduðu með því, virðulegi forseti, að forseti Alþingis beitti sér fyrir að það mál var tekið og skoðað og út úr því kom sátt sem varð líka til bóta, m.a. með nefndarskipun og það sem var náttúrlega allra best að gildistíma laganna var frestað.

Virðulegi forseti. Ég tek þetta hér upp um fundarstjórn forseta með beiðni um nefndadaga annars vegar, og spyr hvenær þeir verði settir, vegna þess að mér sýnist ekki vera vanþörf á því að nefndirnar fái góðan tíma til að vinna í þeim fjölmörgu frumvörpum sem liggja fyrir þinginu, til að koma í veg fyrir mistök. Hér hef ég tekið a.m.k. þrjú dæmi þar sem stjórnarandstaðan með því sem sumir kalla málþófi, aðrir geta kallað með löngum ræðum eða hverju, kom í veg fyrir lagasetningarmistök.