132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[14:11]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar …

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð í salnum.)

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar og frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Ef ég vík fyrst að frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar byggist efni þess í meginatriðum á skýrslu nefndar sem m.a. var falið að endurskoða efni gildandi laga um atvinnuleysistryggingar og samkomulag ríkisstjórnarinnar við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins frá 15. nóvember sl.

Til grundvallar frumvarpinu liggur mikil vinna, en nefndin sem aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnvalda áttu sæti í vann alls í 14 mánuði að því að útfæra þær tillögur sem nú eru komnar í frumvarpsform. Það má því segja að óvenjumikil og -ítarleg vinna liggi til grundvallar í málinu og hefur skýrsla nefndarinnar sem frumvarpið byggist á verið kynnt opinberlega og legið fyrir á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins frá 16. nóvember sl. Jafnframt var vinna við smíði frumvarpsins á grundvelli tillagnanna kynnt félagsmálanefnd Alþingis á fundi ráðherra með nefndinni síðasta haust ásamt öðrum þingmálum.

Vinna við smíði frumvarpsins var hins vegar nokkuð tímafrek og á lokasprettinum farið mjög ítarlega yfir málið með þeim sem það varðar, þ.e. fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Þau vinnubrögð eru ávallt viðhöfð þegar um er að ræða mál á þessu sviði og það mál sem við ræðum hér nú er þar engin undantekning. Er það vel.

Ég treysti því jafnframt að hv. félagsmálanefnd kalli fulltrúa aðila vinnumarkaðarins á sinn fund þannig að ekki leiki vafi á því að þingmenn heyri sjónarmið þeirra allt til loka.

Lítum nú á meginefni frumvarpsins. Ein helsta breytingin á atvinnuleysistryggingakerfinu sem frumvarp þetta felur í sér er tekjutrygging atvinnuleysisbóta. Lagt er til að atvinnuleitendur sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði sem nema 70% af meðaltali heildarlauna. Það tímabil getur hafist þegar grunnatvinnuleysisbætur sem atvinnuleitandi á rétt á hafa verið greiddar í samtals 10 daga.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur geta að hámarki numið 180 þús. kr. á mánuði miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu, en hámarksfjárhæð miðast við tryggingarhlutfall hins tryggða. Við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum launamanns er lagt til að miðað verði við sex mánaða tekjuviðmiðunartímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en hann missti starf sitt. Þegar um er að ræða sjálfstætt starfandi einstakling er gert ráð fyrir að miðað verði við meðaltal tekna á síðasta tekjuári áður en hann varð án atvinnu.

Ég undirstrika mikilvægi þessara breytinga á atvinnuleysistryggingabótakerfinu, þ.e. að ná fram tekjutengdum atvinnuleysisbótum sem ég tel gríðarlega mikilvægar. Með frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar breytingar á skipulagi atvinnuleysistryggingakerfisins. Meginskipulagsbreytingin er sú að gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmd kerfisins í stað sérstakra úthlutunarnefnda. Stofnunin ákvarðar um réttindi og skyldur launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga, þar á meðal um rétt þeirra til atvinnuleysisbóta og um missi þeirra.

Samhliða er lagt til að úthlutunarnefndirnar verði felldar niður í núverandi mynd utan einnar nefndar sem stjórn Vinnumálastofnunar skipar að fengnum tilnefningum. Úthlutunarnefndinni er ætlað að starfa í umboði Vinnumálastofnunar en hlutverk hennar er að gæta samræmis við ákvarðanir um rétt fólks innan atvinnuleysistryggingakerfisins þannig að jafnræðis verði gætt við framkvæmdina. Enn fremur er nefndinni ætlað að setja verklagsreglur um afgreiðslu mála en miðað við að nefndin annist afgreiðslu þeirra umsókna sem krefjast sérstaks mats. Markmið þessarar breytingar er einkum að gera stjórnsýslu atvinnuleysistryggingakerfisins skilvirkari og tryggja réttaröryggi, þar á meðal jafnræði þeirra sem missa vinnu sína tímabundið og sækja um atvinnuleysisbætur.

Sú gagnrýni hefur heyrst í fjölmiðlum frá einstökum stéttarfélögum að þarna sé verið að slíta atvinnuleysistryggingakerfið úr sambandi við verkalýðshreyfinguna. Ég er ekki alls kostar sammála þessum fullyrðingum enda þótt einstök stéttarfélög hætti að vera eins konar skráningar- og útgreiðslustofnanir kerfisins. Ég er á þeirri skoðun að stéttarfélögin eigi frekar að beina kröftum sínum að virkum vinnumarkaðsaðgerðum sem eru til þess fallnar að auka líkur félagsmanna þeirra til að verða aftur þátttakendur á vinnumarkaði í stað þess að beita sér að aðgerðum í formi skráningar eða útgreiðslu atvinnuleysisbóta. Ég get vel séð fyrir mér virkari aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að skipulagningu vinnumarkaðsúrræða og þá sérstaklega þau félög þar sem atvinnuleysi er nokkurt meðal félagsmanna en atvinnuleysi er að sjálfsögðu oft misjafnt eftir starfsgreinum. Þar vil ég meina að séu hin raunverulegu sóknarfæri stéttarfélaganna til að koma félagsmönnum sínum til aðstoðar í atvinnuleysi.

Í þessu sambandi er mikilvægt að nefna að áfram er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins eigi sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem áfram verður sérstakur sjóður, sérgreindur innan ríkissjóðs. Enn fremur er gert ráð fyrir að samtök þessi eigi áfram sæti í stjórn Vinnumálastofnunar. Jafnframt munu samtökin eiga aðild að úthlutunarnefndinni sem ætlað er að annast afgreiðslu þeirra umsókna sem krefjast sérstaks mats. Þá vil ég undirstrika það hér að með framangreindum skipulagsbreytingum verður það áfram markmið okkar að veita öllum landsmönnum góða þjónustu óháð búsetu. Á því verður engin breyting.

Með frumvarpi þessu er leitast við að gera réttindum og skyldum launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklingum innan atvinnuleysistryggingakerfisins skýr skil enda mikilvægt að þau geti áttað sig á hvaða skilyrði þau þurfi að uppfylla til að öðlast rétt innan kerfisins. Sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa átt rétt til atvinnuleysisbóta frá árinu 1993 en einungis hefur verið kveðið á um skilyrði fyrir rétti þeirra með reglugerðum. Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að kveðið verði á um rétt þeirra innan atvinnuleysistryggingakerfisins með settum lögum á sama hátt og gildir um rétt launamanna. Áhersla er lögð á að skilyrði fyrir rétti þessara hópa innan kerfisins séu sambærileg en fjallað er aðskilið um þessa hópa þar sem nokkur eðlismunur er á starfstengdum réttindum þeirra.

Gert er ráð fyrir að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar ef þeir verða atvinnulausir á þar til gerðum eyðublöðum. Er sérstaklega tekið fram að umsókn um atvinnuleysisbætur feli jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Er umsækjanda því gert ljóst þegar í upphafi hvað umsókn hans felur í sér. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda þótt það hafi ekki áður komið skýrt fram í lögum hvað umsókn um atvinnuleysisbætur hefur í raun þótt fela í sér.

Fallið er frá þeirri skyldu atvinnuleitanda að skrá sig reglulega til svæðisvinnumiðlana en í stað hennar komi regluleg samskipti við ráðgjafa innan vinnumarkaðskerfisins. Tíðni slíkrar ráðgjafar, þar á meðal þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum, miðast við þarfir hvers og eins. Áfram er gert að skilyrði að hinn tryggði sé í virkri atvinnuleit til að teljast tryggður innan kerfisins en lagt er til að skilgreint verði hvað felst nánar í því skilyrði. Jafnframt eru sérstök undanþágutilvik tilgreind sem geta leitt til þess að hinn tryggði verði talinn í virkri atvinnuleit enda þótt hann uppfylli ekki öll skilyrði frumvarpsins um virka atvinnuleit.

Ekki eru lagðar til breytingar á aldursskilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum en það nýmæli er lagt til að umsóknir umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem eru yngri en 18 ára hljóti samþykki foreldra og forráðamanna. Enn fremur er leitast við að skýra reglur um hvernig þátttakendur á vinnumarkaði ávinna sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins með starfsframlagi sínu á vissu tímabili. Má segja að um sé að ræða tvenns konar reglur þar sem annars vegar er litið til starfstíma en hins vegar til starfshlutfalls. Með þessari breytingu er verið að leitast við að draga úr áhrifum starfshlutfalla á atvinnuleysistryggingar en áfram gildir að atvinnuleitendur koma ekki til með að öðlast meiri rétt en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili. Hins vegar tekur það þátttakendur á vinnumarkaði jafnlangan tíma að ávinna sér rétt til lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins án tillits til starfshlutfalls.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins geti átt rétt á atvinnuleysisbótum samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tekur við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, í stað fimm ára áður. Ástæða þessa er að bótatímabil gildandi laga hefur verið talið of langt þar sem töluverðar líkur eru á því að fólk sé ekki í virkri atvinnuleit eftir þriggja ára atvinnuleysi. Þykir ástæða til að aðstæður einstaklingsins verði þá metnar aftur heildstætt til að kanna hvort hann þurfi á annars konar aðstoð að halda. Á móti kemur að það er skýrar tekið fram en áður hvaða tímabil teljast til greiðslutímabilsins og leitast er við að skýra frekar þær reglur sem eiga að gilda um endurnýjun tímabilsins.

Það nýmæli er lagt til að virkur þátttakandi á vinnumarkaði getur áunnið sér rétt til nýs greiðslutímabils án þess þó að hafa lokið að fullu við fyrra tímabil. Er hér verið að mæta þeirri gagnrýni sem gildandi kerfi hefur sætt þess efnis að einstaklingur sem áður hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur fari ávallt inn á sama bótatímabil óháð lengd þess tíma sem hann starfar á vinnumarkaði milli þess sem hann er án atvinnu. Þannig er gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að nýtt tímabil hefjist þegar einstaklingur hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði eða lengur og uppfyllir að öðru leyti skilyrði fyrir réttindum innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þykir hæfilegt að einstaklingur sem er virkur á vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði eigi rétt á óskertu tímabili enda er þá nokkuð liðið frá því hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur síðast. Hins vegar er gert ráð fyrir að þegar einstaklingur hefur verið skemur en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði þegar hann sækir að nýju um atvinnuleysisbætur fari hann aftur inn á sama tímabil og hann var á þegar hann fékk vinnuna. Í tilvikum er einstaklingur hefur fengið atvinnuleysisbætur samfellt í þrjú ár er lagt til að sá hinn sami geti áunnið sér rétt að nýju innan kerfisins að 24 mánuðum liðnum enda hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk. Þá er að finna fyllri ákvæði í frumvarpi þessu um tilvik sem leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast, atvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum og um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Er með þessu leitast við að gera kerfið gagnsærra fyrir þá sem missa atvinnu sína. Á sama hátt er gert ráð fyrir sérkafla um viðurlög, t.d. þegar atvinnuleitendur hafna að taka starfi sem býðst fyrir milligöngu vinnumiðlunar eða neita því að fara í atvinnuviðtal.

Virðulegi forseti. Vonir mínar standa til þess að efni þessa frumvarps komi til með að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Ég tel þetta mál mikilvægt og vona að aðrir þingmenn séu mér sammála.

Ef ég vík svo að frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir þá byggist það frumvarp eins og hitt í meginatriðum á skýrslu nefndar sem var falið að endurskoða efni gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir og á m.a. rætur að rekja til samkomulags ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 15. nóvember. Meginmarkmið með þessu frumvarpi er að stuðla að því að sem flestir fái tækifæri til að vera virkir á vinnumarkaði áfram sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Í því markmiði er lagt til breytt skipulag á vinnumarkaðsaðgerðum sem leitast við að gera kerfið einfaldara og skilvirkara með því að miða við að ein stofnun, Vinnumálastofnun, annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem feli í sér vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitenda og skipulag vinnumarkaðsúrræða með hliðsjón af færni þeirra sem eru í atvinnuleit. Áfram er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar en talið er mikilvægt að náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins sé eitt af mikilvægum atriðum þess að árangur megi nást í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í þeim tilgangi að efla enn frekar tengslin við atvinnulífið sem og önnur þjónustukerfi á einstökum svæðum er lagt til að skipað verði sérstakt vinnumarkaðsráð sem ætlað er að komi í stað svæðisráða samkvæmt gildandi lögum. Þar eiga fulltrúar samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda ásamt fulltrúum sveitarfélaga, menntamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sæti. Ástæða þessarar samsetningar er mikilvægi þess að fyrir hendi séu náin tengsl við atvinnulífið sem og félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilsugæslu- og fræðsluyfirvalda á hverju svæði svo unnt sér að tryggja sem besta þjónustu við þá sem þurfa á aðstoð að halda og verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði eins og ég mun koma betur að síðar.

Hlutverk vinnumarkaðsráðanna er að eiga frumkvæði að tillögum um vinnumarkaðsúrræði og framkvæmd þeirra á viðkomandi svæði enda er þeim ætlað að vera Vinnumálastofnun og stjórn hennar til ráðgjafar um vinnumarkaðsmálefni á hverju svæði. Enn fremur er gert ráð fyrir að þjónustustöðvar Vinnumálastofnunar hafi náið samráð við ráðin um ákvörðun á framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða á svæðinu í samræmi við stefnumörkun stjórnar Vinnumálastofnunar og skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum. Er þannig lögð rík áhersla á að þjónusta Vinnumálastofnunar geti verið sem best alls staðar á landinu.

Virðulegi forseti. Með einfaldara fyrirkomulagi standa vonir til að betri yfirsýn fáist yfir þau vinnumarkaðsúrræði sem í boði eru hverju sinni en gagnrýnt hefur verið að starfsendurhæfing sé of dreifð hér á landi og á hendi margra aðila. Samhliða betri yfirsýn má vænta þess að auðveldara verði að grípa inn í þegar í ljós kemur að einstök úrræði henta illa fyrir einstaklinginn í því skyni að bjóða honum aðra þjónustu sem er vænlegri til árangurs. Með þessum hætti er jafnframt leitast við að bjóða einstaklingsmiðaða þjónustu þannig að vinnumarkaðsaðgerðir sem í boði eru miðist við þarfir einstaklinganna sem þurfa á þeim að halda í stað þess að takmarkast við einstök greiðslukerfi eins og oft hefur viljað brenna við í núverandi skipulagi.

Lagt er til að skipulag vinnumarkaðsaðgerða verði slitið úr beinum tengslum við einstök greiðslukerfi. Er þar með ekki síður tryggt að starfsendurhæfingin verði samfelld enda þótt einstaklingurinn kunni að fara á milli einstakra greiðslukerfa. Áhersla er lögð á að litið verði á alla þá sem leita til Vinnumálastofnunar sem virka atvinnuleitendur. Þannig ber að líta til getu einstaklinganna og er lagt fyrir um að vinnufærni atvinnuleitenda verði metin sem fyrst eftir að sótt er um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Metin verði hvers konar aðstoð hver og einn þarf á að halda svo að unnt sé að hefjast handa við að aðstoða þá í atvinnuleit sinni með virkum hætti. Einnig er höfðað til ábyrgðar einstaklinganna sjálfra enda þýðingarmikið að náin samvinna verði milli ráðgjafa stofnunarinnar og þeirra sem til hennar leita. Þess vegna er mikilvægt að atvinnuleitandi leggi fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans svo að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Þegar færni og staða einstaklingsins hefur verið metin að öðru leyti er gert ráð fyrir að gerð verði áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum í samstarfi við hvern og einn. Í þessu sambandi skiptir verulegu máli að atvinnuleitandinn sé hafður með í ráðum enda áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu. Að sama skapi er þýðingarmikið að miða skipulag vinnumarkaðsúrræða við raunveruleg tækifæri einstaklinganna til að fá störf við hæfi á innlendum vinnumarkaði og þarf því jafnframt að líta til þess hverjar atvinnuhorfur í landinu eru á hverjum tíma. Ekki síður er mikilvægt að atvinnuleitandinn sé reiðubúinn að fylgja áætluninni eftir og gera það sem í hans valdi stendur til að meta vinnufærni sína til þess að vera virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Honum stendur til boða ráðgjöf og annar stuðningur frá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar en miðað er við að þeir síðarnefndu veiti atvinnuleitendum aðhald í atvinnuleitinni.

Gert er ráð fyrir að allir þeir sem leita til stofnunarinnar eigi regluleg samskipti við ráðgjafa hennar eftir því sem talið er nauðsynlegt. Á það enn fremur við um þá sem nokkuð sjálfbjarga eru í atvinnuleit sinni en það getur skipt sköpum að gripið sé inn í eins fljótt og þörf krefur, dragist atvinnuleit á langinn. Þá er mikilvægt að atvinnuleitandi upplýsi um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, án ástæðulausrar tafar. Síðast en ekki síst til að undirstrika hlutverk atvinnuleitandans sjálfs er gert ráð fyrir sérstökum heimildum Vinnumálastofnunar til að synja hlutaðeigandi um þá þjónustu sem stofnunin veitir standi vilji hans ekki til gera það sem í hans valdi stendur til að auka líkurnar á því að vera virkur á vinnumarkaði. Til að vinnumarkaðsaðgerðir þjóni tilgangi sínum þarf atvinnuleitandinn sjálfur að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er honum standa til boða og jafnframt að vera reiðubúinn að taka þeim störfum sem í boði eru.

Virðulegi forseti. Til að tryggja að viðunandi árangur innan vinnumarkaðskerfisins liggur fyrir að gott og náið samstarf við aðrar þjónustuaðila þarf að vera fyrir hendi. Í ljósi þeirrar staðreyndar er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiti eftir samstarfi við aðra þjónustuaðila í samráði við atvinnuleitanda ef sá síðarnefndi þarf á þjónustu annarra fagaðila að halda til að ná árangri við að bæta vinnufærni sína í því skyni að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Á sama hátt er gert ráð fyrir að ráðgjafar Vinnumálastofnunar starfi náið með öðrum þjónustuaðilum þegar atvinnuleitandi nýtur þjónustu þeirra eða aðrir þjónustuaðilar leita eftir liðsinni þeirra.

Það kann að vera að raunveruleg atvinnuleit geti ekki hafist fyrr en atvinnuleitandi hefur leitað sér aðstoðar innan annarra opinberra þjónustukerfa. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiðbeini atvinnuleitanda áfram til viðeigandi þjónustustofnana innan heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins. Er þar með lögð áhersla á að allir sem koma að málum einstaklinganna geti unnið saman við að aðstoða þá við að verða virkir á vinnumarkaði.

Í því skyni að ganga úr skugga um að atvinnuleitandi leiti sér raunverulegrar aðstoðar er lagt til að heimilt verði að binda þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum við það skilyrði að leitað sé fyrst eða samhliða aðstoðar annarra þjónustuaðila. Með þessu er verið að auka líkur á að vinnumarkaðsaðgerðir skili viðeigandi árangri enda, eins og áður segir, til dæmi þess að einstaklingur teljist ekki vera vinnufær fyrr en hann hefur ráðið bót á öðrum vandamálum sem hann kann að glíma við á sama tíma.

Þegar atvinnuleitandi þarf á aðstoð að halda er mikilvægt að valið sé vinnumarkaðsúrræði sem til þess er fallið að skila einstaklingnum árangri. Lagt er til að fyrir hendi verði nokkrar tegundir vinnumarkaðsúrræða en sum þeirra feli í sér mjög takmarkaða þjónustu en önnur mjög öfluga aðstoð. Það fellur því í hlut ráðgjafa Vinnumálastofnunar að meta hvaða úrræði henta hverjum og einum og miða framboð úrræða við samsetningu hópsins sem óskar eftir þjónustu stofnunarinnar og við atvinnuhorfur á vinnumarkaði.

Gert er ráð fyrir sex tegundum vinnumarkaðsúrræða en að þessu leyti má segja að frumvarpið feli í sér eins konar ramma þar sem gert er ráð fyrir að fleiri en eitt úrræði geti fallið undir hverja tegund. Lagt er til að kveðið verði nánar á um skipulag vinnumarkaðsúrræða í reglugerð en miðað er við að Vinnumálastofnun skipuleggi þau ásamt því að annast framkvæmd þeirra.

Þarna getur verið um að ræða einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfsstyrkingu sem og námskeið til að bæta tiltekna færni. Starfsúrræði sem fela í sér starfskynningu, starfsþjálfun eða reynsluráðningu hafa þótt skila góðum árangri en þau byggjast á góðu samstarfi við atvinnulífið. Jafnframt kann að vera mikilvægt að skipuleg ráðgjöf fari fram samhliða námskeiðsþátttöku og starfsúrræðum.

Það getur verið um að ræða regluleg viðtöl við ráðgjafa Vinnumálastofnunar en einstaka verkefni þar sem eftirfylgnin er mikil á vegum þess sem annast námskeiðið. Enn fremur hafa námsúrræði þótt mjög mikilvæg vinnumarkaðsúrræði en það þarf að meta hverju sinni hvers konar námsframboð nýtist atvinnuleitanda beint í atvinnuleit. Þar kemur helst til greina starfstengt nám en ekki er hér átt við hefðbundið framhaldsskólanám eða nám á háskólastigi.

Mikilvægt er að í boði séu úrræði sem fela í sér atvinnutengda endurhæfingu þar sem aðalmarkmið endurhæfingar er að atvinnuleitandi verður virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Fólk sem hefur helst úr lestinni á vinnumarkaði eða hefur ekki náð að staðfesta sig þar af einhverjum ástæðum þarf oft á atvinnutengdri endurhæfingu að halda sem felur í sér öflugri aðstoð og stuðning við að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þá er gert ráð fyrir að í boði verði atvinnutengd endurhæfing fyrir einstaka hópa fólks en þar undir falla úrræði eins og atvinna með stuðningi og verndaðir vinnustaðir.

Eins og ég hef sagt hefur það sætt gagnrýni að starfsendurhæfing sé of dreifð á landinu og á hendi margra aðila. Er því gert ráð fyrir að í kjölfar þess að Alþingi samþykki frumvarp þetta verði ráðist í endurskoðun þjónustusamninga og hvers kyns greiðslna úr ríkissjóði sem og einstöku sjóðum til starfsendurhæfingar til að ná fram markvissum árangri. Er gert ráð fyrir 5 millj. kr. í þessi verkefni fyrst um sinn. Þá er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember starfandi nefnd í forsætisráðuneytinu sem m.a. er ætlað að fjalla um starfsendurhæfingu en segja má að frumvarp þetta veiti nefndinni ákveðinn ramma til að starfa eftir að því er það varðar.

Þar með verður til umræðu hvernig standa skuli frekar að fjármögnun vinnumarkaðsaðgerða en samkvæmt framangreindri yfirlýsingu munu ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins koma sameiginlega að fjármögnun þeirra aðgerða sem fjallað er um í frumvarpi þessu.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að lagt sé til að skipulag vinnumarkaðsúrræða Vinnumálastofnunar miðist ekki eingöngu að þörfum þeirra sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, eins og verið hefur, er gert ráð fyrir að ákveðin samvinna geti verið milli þessara kerfa. Sama gildir um önnur greiðslukerfi.

Þannig er miðað við að einstök greiðslukerfi geti gert sérstaka þjónustusamninga um samstarf þannig að ráðgjafar Vinnumálastofnunar tilkynni um tilvik þar sem atvinnuleitendur fylgja ekki eftir áætlun þeirra um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum og geti því ekki talist vera í virkri atvinnuleit. Með þessum hætti er gert ráð fyrir að enda þótt tengslin séu óbeint slitin milli vinnumarkaðsúrræða og einstakra greiðslukerfa geti engu að síður verið þýðingarmikið að tengja rétt atvinnuleitanda til fjárhagsaðstoðar úr einstökum greiðslukerfum til þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum í því skyni að auka líkurnar á að hlutaðeigandi verði virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Efni þessa frumvarps er til þess fallið að auka tækifæri þeirra sem hafa helst úr lestinni af ýmsum ástæðum en vilja aftur verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Mikilvægt er að ræða þessi tvö frumvörp sem ég hef mælt fyrir hér í dag saman enda er hér um tengd mál að ræða. Ég ítreka að þessi mál eru afar mikilvæg og vona að aðrir þingmenn séu mér sammála um það. Það er þýðingarmikið og ég veit að þetta mál fær hér málefnalega umræðu. Ég legg til að lokinni þeirri umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.