132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:23]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær ágætu umræður sem hafa verið um þetta mál og góðar undirtektir við málið í heildina þótt hér kæmu fram ýmsar fyrirspurnir sem eðlilegt er um jafnstórt mál og þetta.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hreyfði því og lýsti áhyggjum sínum af því hvort fjármagn mundi fylgja þessum aðgerðum. Það er alveg ljóst að fjármagn þarf að fylgja þessum aðgerðum. Þessi mál eru til umfjöllunar í nefnd forsætisráðuneytisins sem fjallar um endurhæfingarmálin og niðurstaða af því nefndarstarfi mun væntanlega liggja fyrir fyrir haustið. Að óbreyttu er gert ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður annist endurhæfingarmálin, þetta sé tveggja stoða kerfi í samvinnu við t.d. lífeyrissjóði en það er ríkisframlag, þannig að ef til þess kemur þá færi það í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er það sem er átt við í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins og það var ákveðið að bíða niðurstöðu nefndarinnar með þennan þátt málsins.

Það er engin ákvörðun um að leggja til að launamenn kaupi viðbótartryggingu. Varðandi hvað hópurinn er stór sem hefur rétt til tekjutengdra bóta þá hef ég þá tölu ekki handbæra en mér finnst rétt að félagsmálanefnd kalli eftir henni og sú tala komi inn þegar líður á vinnslu málsins áður en afgreiðslu þess lýkur.

Varðandi hvort reglugerðir séu tilbúnar þá eru þær í vinnslu og við höfum einsett okkur að vinna þær reglugerðir sem þessu tengjast í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Varðandi 63. gr., styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði til ýmissa aðgerða á vinnumarkaði, þá er sú grein aðeins framhald frá fyrri lögum og felur ekki í sér neinar stefnubreytingar.

Varðandi viðurlögin þá eru þau gerð skýrari. Það er engin meginstefnubreyting í kaflanum um viðurlögin.

Varðandi atvinnuleit hvar sem er á landinu og skyldu til að taka atvinnu hvar sem er á landinu þá er þar engin breyting frá gildandi lögum og engin stefnubreyting hvað það varðar.

Varðandi þá sem eru á sjúkradagpeningum eða fá greiðslur úr þeirri átt, þá er reiknað með því að sá hinn sami sé ekki í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og ekki talið samrýmanlegt að því leyti að þau ákvæði nái yfir þá.

Varðandi úthlutunarnefndirnar þá vil ég bæta við það sem ég sagði í framsöguræðu minni að þarna eru auðvitað skiptar skoðanir en með þeim tillögum sem fram komu í frumvarpinu er verið að svara ákveðinni gagnrýni og tekin sú ákvörðun að stjórnvaldsákvarðanir séu teknar á einum stað en ekki í nefndum sem dreifðar eru um landið. Eins og ég sagði í upphafi þá tel ég að eðlilegt sé fyrir verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfinguna að einbeita sér að virkum vinnumarkaðsaðgerðum fyrir sitt fólk, það sé skynsamlegt að koma þessum aðgerðum að þannig.

Með fækkun í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er markmiðið að hún geti starfað greitt og markvisst og að stjórnin annist sjálf þær ákvarðanir sem hún þarf að taka til að gegna starfi sínu en núna er sérstakt framkvæmdaráð í stjórninni. Reyndar kom hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundur Jónasson, réttilega að þessu. Um þetta má auðvitað deila en það þótti rétt að fækka í stjórninni til að reyna að gera starf hennar markvissara að þessu leyti. Vissulega má deila um hvernig hið rétta fyrirkomulag eigi að vera í þessu en ég tel og styð það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Varðandi það hvert eigi að vísa manni sem hefur verið atvinnulaus í þrjú ár þá er það svo að sá sem hefur verið atvinnulaus í þrjú ár á við virkileg vandamál að stríða. Ég hygg að raunin sé því miður sú að sá maður þurfi að leita á náðir tryggingakerfisins til framfærslu og að um hann þurfi að taka sérstakar ákvarðanir, þ.e. um þá einstaklinga sem þannig háttar til um. Það er samkomulag milli þeirra aðila sem undirbjuggu frumvarpið og höfðu samráð um frumvarpið að þetta tímabil yrði þrjú ár og síðan yrði að taka með sérstökum hætti á málefnum þeirra einstaklinga sem þar standa út af.

Ég tel þetta frumvarp í heild sinni vera mjög til bóta og framfaraskref og ég fagna því og þrátt fyrir efasemdir um einstök atriði og réttmætar spurningar sem komu fram í þessari umræðu, sérstaklega frá hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhönnu Sigurðardóttur, þá heyri ég að mikill hljómgrunnur er fyrir þessu frumvarpi og stuðningur við það. Ég tel að það sé afar þýðingarmikið. Það er langt í frá að ég sé nokkuð hræddur um að þetta frumvarp leiði til þess að atvinnuleysi aukist eða letji þá atvinnulausu til að ná sér í störf. Ég tel að þær aðgerðir sem ætlunin er að grípa til samhliða þessu frumvarpi muni leiða til mikilla úrbóta á vinnumarkaði og ég bind miklar vonir við störf þeirrar nefndar, sem fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins eiga reyndar aðild að líka því þessi mál tengjast tryggingakerfinu og það er alveg ljóst að þarna þarf samræmingar og samhæfingar við.

Varðandi þjónustuna við landsbyggðarfólk þá tel ég að útfæra megi þá þjónustu þannig að hún versni ekki frá því sem nú er. Það eru fjöldamargir aðilar sem gætu tekið að sér þjónustu fyrir Vinnumálastofnun að þessu leyti þar sem hún starfar ekki. Reyndar hefur hún útibú víða um landið en það er ekki ætlunin að stefna fólki um langan veg til að njóta þjónustu hennar. Stofnunin er að vinna að útfærslu á því hvernig hún skipuleggur sig samkvæmt þessu nýja frumvarpi. En ég tel auðvitað rétt og sjálfsagt að félagsmálanefnd kalli á forsvarsmenn stofnunarinnar og fari yfir þann þátt málsins áður en málið kemur til 2. umr.