132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:35]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fjármögnun á vinnumarkaðsaðgerðum þá náði ég ekki alveg skýringum hæstv. ráðherra í því efni. Ég sé ekki hvaða samhengi er á milli fjármögnunar sem á að koma beint úr ríkissjóði til Atvinnuleysistryggingasjóðs og nefndar sem starfar á vegum forsætisráðherra um starfsendurhæfingu, sem á að skila fyrir haustið.

Nú er það svo að þessi lög eiga að taka gildi um mitt ár, þ.e. 1. júlí. Ég spyr hæstv. ráðherra: Nefndin á ekki að ljúka fyrr en í haust og fjármagnið kemur væntanlega ekki fyrr en sú nefnd hefur skilað af sér, þ.e. væntanlega ekki fyrr en á næstu fjárlögum. En hvað með þann tíma sem eftir lifir af þessu ári? Þetta tekur gildi 1. júlí, á þá Atvinnuleysistryggingasjóður að fjármagna þetta þangað til?

Hvað eru menn að tala um háar fjárhæðir? Það hlýtur að hafa verið rætt milli aðila vinnumarkaðarins um hve háar fjárhæðir er að ræða og hvaða hugmyndir menn hafa þar að lútandi. Ég hef heyrt nefnda töluna 200 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti staðfest að það sé rétt og að ætlaðar séu í þessar vinnumarkaðsaðgerðir 200 millj. kr. Ég skil hæstv. ráðherra svo að þetta verði ríkisframlag sem fari í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Spurningin er hvenær það kemur. Er það hugmyndin, ég bið ráðherra að tala skýrar um það, að það verði á næstu fjárlögum?

Varðandi reglugerðarákvæðin, að þau séu í vinnslu, þá er nauðsynlegt fyrir félagsmálanefnd að hún fái að sjá, virðulegi forseti, a.m.k. hvað er verið að tala um. Lágmarkið er að drög að þessum reglugerðum verði lögð fyrir nefndina. Það þarf að koma fram hvað ráðherra er að hugsa. Hvað er verið að tala um varðandi styrki til búferlaflutninga? Þetta er nauðsynlegt til að fá heildarmynd af öllu dæminu.

Varðandi ákvæði til bráðabirgða II þá finnst mér ekki koma fram nægilega skýrt af hendi ráðherra hvers vegna þeir hópar sem urðu atvinnulausir fyrir 15. nóvember fá ekki atvinnutekjutengdar bætur. Ég spyr um það.