132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:37]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi fjármögnunina. Ég endurtek að þessi mál eru til umræðu. Það varð samkomulag um að fá niðurstöðu nefndarinnar og að sú niðurstaða kæmi fyrir haustið. Vissulega mun þá liggja fyrir hvaða fjármunum verður varið í þetta. Ég ætla ekki að nefna þá tölu endanlega núna. Það hafa verið nefndar 100 millj. kr. og allt upp í það sem hv. þingmaður nefndi, allt að 200 millj. kr. En það varð niðurstaðan að nefndin færi rækilega yfir þetta mál. Hlutverk hennar var líka að sameina og samræma aðgerðir lífeyrissjóðanna í þessum málum og hins opinbera.

Varðandi gildistökuákvæðið og stöðu þeirra sem hv. þingmaður nefndi varð það samkomulag milli aðila að þetta yrði eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Sú varð niðurstaðan og þannig er málið lagt fyrir.