132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:41]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka, varðandi fjármögnunina, að það var samkomulag um það í ríkisstjórn að leggja málið fram svona. (JóhS: Í ríkisstjórn, ekki við aðila vinnumarkaðarins.) Já, í ríkisstjórn. Það var lagt fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins og er alveg ljóst að reiknað er með því að í þetta komi peningar úr ríkissjóði. Það er verið að stilla þessi fjárframlög saman við hugsanleg fjárframlög úr lífeyrissjóðum til að gera mikið átak í endurhæfingu. Það var talið rétt að fá niðurstöðu nefndarinnar áður en gengið yrði frá þessu fjárhagsmáli en þá litlu upphæð sem er inni í frumvarpinu á að nota til undirbúnings.

Varðandi styrkina sem hv. þingmaður nefndi er þar ekki nein breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Þeir eru fyrir hendi núna og ekki ætlunin að nein breyting verði á því.

Varðandi það hvort félagsmálanefnd megi ekki breyta neinu í frumvarpinu þá endurtek ég að þetta frumvarp byggist á víðtæku samráði. Hins vegar efast ég ekki um að félagsmálanefnd mun vinna vel í þessu frumvarpi. Ég er aldrei á móti breytingum sem eru til bóta. (JóhS: Gott.) Hins vegar vil ég slá þann varnagla að þetta frumvarp byggist á vissu samkomulagi og það er vont að raska því með miklum uppskurði á frumvarpinu en ég er ekki á móti breytingum sem eru til bóta.