132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Aðstoðarmenn og ráðgjafar ráðherra.

517. mál
[12:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Samkvæmt 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, er ráðherra „heimilt að kveðja sér til aðstoðar, meðan hann gegnir embætti, mann utan ráðuneytis, sem starfi þar sem skrifstofustjóri, enda hverfi hann úr starfi jafnskjótt sem ráðherra, en njóti þá launa þrjá mánuði, hafi hann ekki áður verið ríkisstarfsmaður, en ella eigi hann rétt á að hverfa til fyrra starfs síns eða annars starfs eigi lakara að föstum launum í þjónustu ríkisins.“

Þetta ákvæði hefur verið túlkað svo að það veiti heimild til að ráða einn aðstoðarmann í hvert ráðuneyti. Þá er ráðherrum heimilt að ráða til sín ráðgjafa á afmörkuðum sviðum til að sinna tímabundnum verkefnum enda standi fjárheimildir til þess.

Með bréfi dagsettu 15. febrúar síðastliðinn óskaði forsætisráðuneytið eftir upplýsingum frá öðrum ráðuneytum um starfsmenn sem ráðnir hefðu verið með slíkum hætti. Í svörum ráðuneytanna kom fram að í flestum tilvikum er ekki um að ræða neina aðra aðstoðarmenn ráðherra en þá sem getið er um í 14. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.

Það er hins vegar rétt að nú starfa upplýsingafulltrúar í tveimur ráðuneytum, þ.e. í forsætisráðuneytinu og í samgönguráðuneytinu, þ.e. upplýsingafulltrúar sem hafa verið ráðnir til tímabundinna verkefna. Upplýsingafulltrúar hafa starfað á þessum grundvelli í öðrum ráðuneytum.

Síðan er það rétt að í menntamálaráðuneytinu er nú starfandi ráðgjafi í menntamálum sem einnig starfar tímabundið. Þetta er staða þessara mála, hæstv. forseti.