132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Aðstoðarmenn og ráðgjafar ráðherra.

517. mál
[12:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni.

Svör hæstv. forsætisráðherra voru skýr. Það er heimild til að ráða einn aðstoðarmann með hverjum ráðherra inn í ráðuneyti. Því hlýtur að liggja ljóst fyrir að sá starfsmaður sem var kveikjan að fyrirspurninni hefur einfaldlega misskilið til hvers var verið að ráða hann og vinnur þá vonandi samkvæmt því en ekki sem aðstoðarmaður ráðherra, eins og starfsmaðurinn virðist hafa litið á sig.

Hæstv. ráðherra talar um heimildir til að ráða ráðgjafa til að sinna tímabundnum störfum. Spurningin er: Þarf ekki að skerpa á þeirri heimild? Þarf ekki að skerpa rammann í kringum það þannig að bæði starfsmennirnir sem ráðnir eru og ráðherra viti að um tímabundna skammtímaráðningu er að ræða í ákveðin föst verkefni? Þarf ráðherra ekki að ráða eftir ákveðnum reglum en ekki að ráða inn fólk sem heldur að það sé orðið persónulegir aðstoðarmenn númer tvö eða þrjú eða fjögur?

Ég get alveg tekið undir að full þörf geti verið á því að ráða inn fleiri pólitíska aðstoðarmenn með ráðherra þegar hann tekur við ráðuneyti. En þá er mjög mikilvægt að þeir pólitískt ráðnu ráðgjafar, persónulegir ráðgjafar ráðherrans, víki á sama tíma og ráðherrann og allir viti hvaða hlutverki þeir gegna í ráðuneytinu. Það gengur ekki að fólk, sem á undir ráðuneyti að sækja og telur sig vera að tala jafnvel við opinberan starfsmann, óvilhalla opinbera starfsmenn, sé að ræða beint við pólitíska ráðgjafa eða aðstoðarmenn hæstv. ráðherra án þess að hafa hugmynd um það.

Ég legg áherslu á það í lokin að mikilvægt er að setja reglur um pólitískar ráðningar í ráðuneytin, gegnsæjar, opnar og allir viti um hvað þær fjalla, bæði þeir sem verið er að ráða og eins hinir sem ráða.