132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða fiskverkenda.

587. mál
[12:40]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til að ræða þessi mál á Alþingi og býsna oft þyrfti að gera það vegna þess að samkeppnisstaða fiskverkenda til að keppa sín á milli, annars vegar þeirra sem fá fisk af sínum eigin skipum og hinna sem kaupa á markaði, er óþolandi. Hún hefur það í för með sér núna að mismunurinn t.d. á því verði sem menn greiða fyrir aflann er svona á bilinu 20–40 kr. á kílóið og menn sjá hvers konar aðstöðumunur það er. Þetta fyrirkomulag er í raun og veru að útrýma möguleikum þeirra sem hafa verið með fiskvinnslu án útgerðar. Stjórnvöld hafa daufheyrst við ábendingum um að það þurfi að taka á þessum málum. Auðvitað er eina leiðin til þess að skilja með skýrum hætti á milli fiskvinnslu og útgerðar en það hafa stjórnvöld í landinu ekki kært sig um að gera. Þau voru hins vegar fljót til þegar menn töldu ástæðu til að skilja á (Forseti hringir.) milli Símans, annars vegar farsímaþjónustunnar og hins vegar annarrar starfsemi, þegar menn kölluðu (Forseti hringir.) eftir því.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða þann skamma ræðutíma sem gefinn er í þessum umræðum.)