132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða fiskverkenda.

587. mál
[12:41]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það virðist vera allt í lagi þó að samkeppnisstaða fyrirtækja í fiskvinnslu og útgerð, sérstaklega fiskvinnslu án útgerðar, sé algerlega óþolandi í samanburði við þá sem reka eigin útgerð. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki kveða nógu skýrt að orði varðandi niðurlag ræðu sinnar og vil spyrja hæstv. ráðherra: Mun ráðherra beita sér fyrir því að fiskvinnsla sem ekki er með útgerð geti leigt eða keypt til sín aflaheimildir án þess að eiga eða gera út skip sem fyrsta skref í að jafna þessa aðstöðu? Og eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti á virðast allt önnur lögmál gilda í öðrum atvinnugreinum en í útgerð og fiskvinnslu. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það og sagt okkur af hverju önnur lögmál ættu að gilda í þeim iðnaði frekar en öðrum.