132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða fiskverkenda.

587. mál
[12:44]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vona að allir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að ég fer ekki með sjávarútvegsmál. Það er því ekki í mínu valdi að gera breytingar á því fyrirkomulagi heldur verða þeir að beina þeim fyrirspurnum þá til hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Það sem snýr að mér í þessu máli er sá þáttur sem ég fór yfir í svari mínu. Það er mitt hlutverk að koma að málinu frá því sjónarhorni, þ.e. frá sjónarhorni samkeppnismála og þess vegna fór ég yfir þá meðferð mála sem hefur átt sér stað innan Samkeppnisstofnunar meðan hún var og hét og fór yfir niðurstöður samkeppnisráðs sem snúa að þessu máli.

Hins vegar get ég sagt það að þeim niðurstöðum var beint til sjávarútvegsráðherra á sínum tíma þar sem hann fer með þennan málaflokk og það leiddi ekki til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða í þá átt sem samkeppnisráð benti á.

Hvað varðar það að skilja eigi á milli veiða og vinnslu með skýrum hætti hef ég ekki verið þeirrar skoðunar að það yrði til hagsbóta fyrir land og þjóð þegar á heildina er litið og hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum í sjálfu sér. En hins vegar má velta fyrir sér hvort þarna geti verið eitthvert meira frjálsræði. Þetta er svar mitt við því sem hér hefur komið fram að ég beiti mér ekki sérstaklega fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, enda hef ég talið í öllum aðalatriðum það vera mjög góð lög og hafa skipt miklu máli í sambandi við útgerð á Íslandi síðan þau lög voru sett, hún er þó farin að bera sig miklu betur.

Það að ég hafi einhvern tíma sagt að ég ætlaði ekki að föndra við byggðirnar er það nú svolítill útúrsnúningur hjá hv. fyrirspyrjanda hvernig hann hefur notað þau orð mín en sannleikurinn er sá að ég er meira og minna alla daga að föndra við byggðir. Það sem ég meinti þegar ég lét þau orð falla var að ég hef ekki verið þeirrar (Forseti hringir.) skoðunar að skipta eigi fiskveiðiheimildunum niður á byggðarlögin, heldur verði þarna að ríkja ákveðið markaðslögmál.