132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Meðferð mála hjá Samkeppniseftirlitinu.

627. mál
[12:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra og hún hljóðar svo:

1. Hvað eru mörg óafgreidd mál í meðferð hjá Samkeppniseftirlitinu, hver er meðalafgreiðslutími þeirra og hvað eru elstu mál gömul?

2. Hversu mörg mál voru óafgreidd hjá Samkeppnisstofnun þegar ný samkeppnislög tóku gildi og hvað höfðu þau beðið lengi afgreiðslu að meðaltali?

Ástæða þess að ég spyr þessara spurninga er sú að þegar Samkeppnisstofnun var lögð niður og búin til ný stofnun var það gert með því fororði að efla ætti þessa nýju stofnun og málin ættu að ganga hraðar í gegnum hana. Þess vegna er vel þess virði að spyrja hvort sá tilgangur hafi náðst.

Málið er að ég hef dæmi fyrir mér þar sem kvörtun er beint til Samkeppnisstofnunar í apríl 2004 en enn þá er ekki komin niðurstaða. Þrátt fyrir þær breytingar sem boðaðar voru með nýjum lögum um Samkeppniseftirlitið hefur það mál a.m.k. ekki klárast. Það sem er athyglisvert við það mál er að nær allir málsaðilar, nema sá sem kærði, hafa skipt um nafn. Íslandsbanki er orðinn Glitnir, Landssíminn er Síminn og Samkeppnisstofnun Samkeppniseftirlitið. Samt sem áður, þó að þetta sé orðið svo gamalt að allir eru búnir að skipta um nafn í þessu umhverfi er ekki enn þá komin niðurstaða. Þetta varðar mál á sviði fjarskipta og upplýsingamiðlunar og einmitt í þeim geira skiptir verulega miklu máli að niðurstöður komi mjög fljótt vegna þess að tækniframfarir eru örar. Og síðan þegar kominn er úrskurður mörgum mánuðum eða jafnvel árum síðar þá skiptir niðurstaðan kannski ekki öllu máli.

Miklu máli skiptir vil ég segja og legg áherslu á að ef þetta Samkeppniseftirlit á að virka þá verða niðurstöður í málum að koma fram en ekki að það sé árum seinna frá því að kært er.

Þess vegna er mjög fróðlegt að fá nú að vita svör við þeim spurningum sem ég hef beint til hæstv. viðskiptaráðherra hvort það hafi í raun orðið, sem efnt var til, að meðalafgreiðslutími hafi orðið styttri en var áður.