132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ívilnanir til álvera á landsbyggðinni.

631. mál
[13:02]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrsta spurning er þessi:

„Í hverju eru þau sérkjör og „ívilnandi samningar við stjórnvöld“ fólgin sem álver og önnur fyrirtæki á landsbyggðinni geta fengið umfram fyrirtæki á suðvesturhorni landsins og heimil eru samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA?“

Svar: Sérkjör af því tagi sem spurt er um í fyrirspurninni eru grundvölluð á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA sem fram kemur í leiðbeiningum stofnunarinnar um opinbera styrki og lýst er nánar í lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993.

ESA hefur að tillögu íslenskra stjórnvalda gefið út svokallað byggðakort yfir landsvæði þar sem heimilt er að fjármagna verkefni með opinberum styrkjum og veita sérkjör. Samkvæmt kortinu er landinu skipt í tvö svæði, annars vegar höfuðborgarsvæðið ásamt norðanverðum Reykjanesskaga til og með Sandgerðisbæ og hins vegar önnur landsvæði. Óheimilt að veita aðstoð úr opinberum sjóðum á fyrrnefnda svæðinu en heimilt að vissu marki á öðrum landsvæðum. Þar býr um þriðjungur þjóðarinnar. Samkvæmt ákvörðun ESA geta fyrirtæki á landsbyggðinni fengið sérkjör umfram fyrirtæki á suðvesturhorninu allt að 17% af upphaflegum stofnkostnaði vegna starfsstöðvar eða breytinga á henni.

Til viðbótar er heimilt að veita smáum og meðalstórum fyrirtækjum aðstoð er svarar til allt að 10% af sömu kostnaðarþáttum. Norðurál við Grundartanga og Fjarðaál í Reyðarfirði hafa fengið ívilnanir á nokkrum sviðum í samræmi við þessi lög. Ívilnanir þessar eru nánar skilgreindar í lögum um heimildir til samninga um álverksmiðjur á Grundartanga og í Reyðarfirði. Um er að ræða ábyrgðir ríkisins til að tryggja efndir af hálfu viðkomandi sveitarfélaga í fjárfestingarsamningum og hafnarsjóða í hafnarsamningum, undanþágu frá vissum ákvæðum í lögum um búsetu og ríkisfang stjórnarmanna, takmarkanir og skyldur um fyrirtækjafyrirkomulag og eignarhald og undanþágu frá lögum um brunatryggingu og viðlagatryggingu fasteigna.

Jafnframt er kveðið á um skattlagningu álveranna en hún er í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum svo sem um fasteignaskatta, stimpilgjöld, byggingarleyfisgjöld og fleira. Ívilnanir varðandi byggingu álvers eru reiknaðar út í upphafi samningstímabilsins á grundvelli áætlana um stofnkostnað og rekstur samkvæmt reglum ESA.

Byggðastofnun er heimilt að fjármagna verkefni, veita lán og ábyrgðir á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins. Um fjármögnunar- og lánastarfsemi stofnunarinnar gilda ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Stjórn Byggðastofnunar setur reglur um framlög til verkefna, lán og ábyrgðir og ákveður hugsanleg „sérkjör“ eftir lögum og reglugerð fyrir stofnunina.

Önnur spurning: „Hver er ferill umsóknar fyrirtækja um sérkjör á þessum grunni?“

Svar: Hvað varðar áðurnefnd álfyrirtæki var samið um sérkjör á grundvelli heimilda í lögum frá Alþingi sem áður var vísað til. Varðandi feril umsókna fyrirtækja til Byggðastofnunar vísar til laga og reglugerðar um stofnunina.

Þriðja spurning: „Hvaða fyrirtæki í landinu njóta nú þegar sérkjara á nefndum forsendum, hverjar eru þær ívilnanir og hve mikla fjármuni er um að ræða í hverju tilviki? “

Svarið er þetta: Fyrsti áfangi Norðuráls, bygging 60.000 tonna álvers við Grundartanga 1998, naut ívilnana samkvæmt sérkjörum í fjárfestingarsamningi sem reyndist samkvæmt útreikningum ESA vera að upphæð samtals 6 millj. bandaríkjadala, eða um 460 millj. kr. Það var um það bil 3,6% af áætluðum stofnkostnaði álversins.

Að svo stöddu liggja ekki fyrir einstakar upphæðir ívilnana samkvæmt þeim fjárfestingarsamningum um stækkanir Norðuráls áfram eða umfram þessi 60.00 tonn í 260.000 tonna framleiðslugetu á ári sem nú er að hluta komið til framkvæmda og gera má ráð fyrir.

Upphæð ívilnana fyrir byggingu 322.000 tonna álvers Fjarðaáls í Reyðarfirði er samkvæmt útreikningum 34,3 millj. bandaríkjadala, eða um 2.600 millj. kr. sem eru um 3% af áætluðum stofnkostnaði álversins eða langt innan við heimild ESA. Heildarupphæð styrkja Byggðastofnunar til atvinnuþróunar á landsbyggðinni á árinu 2004 var samtals 143 millj. kr. sem skiptist milli 64 verkefna.