132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Ívilnanir til álvera á landsbyggðinni.

631. mál
[13:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að við verðum að passa okkur á að rugla ekki hlutum saman. Annars vegar getum við verið að tala um aðgerðir t.d. á vegum Byggðastofnunar sem varða landsbyggðina og hins vegar getum við verið að tala um fjárfestingarsamninga sem eru gerðir á grundvelli stórverkefna eins og uppbyggingu álvera. Þá eru slíkir samningar lögfestir á hv. Alþingi þar sem þeir eru ákveðin undanþága frá almennum skattalögum að einhverju leyti.

Þess vegna skulum við líka hafa í huga að það er ekki þannig að þetta fyrirkomulag sé algjörlega einskorðað við stóriðju eða álversframkvæmdir. Það er hægt að hugsa sér slíka samninga á grundvelli annarrar starfsemi. En grundvallaratriðið er að það þarf að fá slíka samninga samþykkta af Eftirlitsstofnun EFTA. Við höfum undirgengist slíkt fyrirkomulag með EES-samningnum. Þess vegna er það ekki þannig að þetta gildi bara fyrir álver. Það held ég að sé mjög mikilvægt að komi fram.

Hv. þingmaður talaði um samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar og vissulega er hún veik á sumum sviðum en getur verið sterk á öðrum. Það sem nú hefur verið að gerast í sambandi við gengi krónunnar skiptir mjög miklu máli fyrir sjávarútveginn sem er fyrst og fremst stundaður á landsbyggðinni.

Hvað varðar flutningskostnaðinn hef ég margoft farið yfir það hér á hv. Alþingi að hugmyndir voru uppi um hvort ástæða væri til að … (Gripið fram í: Því var lofað.) Það voru uppi hugmyndir um hvort hægt væri að koma á fyrirkomulagi þar sem styrkir yrðu til fyrirtækja vegna flutningskostnaðar þeirra. Þau mál voru skoðuð og ég er viss um að þau væri viðurkennd af ESA ef út í það færi. En hins vegar hefur ekki náðst (Forseti hringir.) pólitísk samstaða um að fara út í slíkt fyrirkomulag og það var ekkert í stjórnarsáttmála um það. (Forseti hringir.) Það er því ekki verið að svíkja neitt.