132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða ríkisbanka á húsnæðismarkaði.

590. mál
[13:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um samkeppnisstöðu ríkisbanka á húsnæðismarkaði. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég tek þetta mál upp á Alþingi. Ég hef gert það mjög reglulega og á sama hátt hef ég gert það í félagsmálanefnd þar sem ég gegni varaformennsku.

Ástæðan er einföld. Ég tel að hér sé ekki gætt jafnræðis varðandi samkeppnisstöðu ríkisbankans annars vegar og annarra banka og sparisjóða hins vegar. Ég hef auk þess miklar áhyggjur af því að þær aðgerðir sem menn hafa farið í í kringum Íbúðalánasjóð ógni þeim stöðugleika sem verið hefur í þjóðlífinu og sátt hefur verið um að viðhalda. Ég held, virðulegi forseti, að við höfum gert ákveðin mistök með þeirri framgöngu sem ég ætla ekki að lýsa neitt nákvæmlega. Ég held að menn þekki sjónarmið mín hvað það varðar. Það skiptir mjög miklu máli ef menn ætla að reyna að viðhalda þeim stöðugleika sem við viljum hafa, sem er grundvöllur að velmegun í okkar samfélagi og afskaplega mikilvægur fyrir fólk almennt, sérstaklega yngra fólk sem er með skuldir eins og húsnæðislán og annað slíkt. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir og það er margt sem bendir til þess — það hafa komið meldingar, og því máli er ekki lokið, frá eftirlitsstofnunum sem við höfum gengist undir með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, um að við stöndum heldur ekki rétt að málum þegar kemur að samkeppnisstöðu þessa ríkisbanka gagnvart öðrum þeim bankalánastofnunum sem eru á markaði. Þess vegna, virðulegi forseti, vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Mun ráðherra beita sér fyrir því að samkeppnisstaða ríkisbanka á húsnæðismarkaði gagnvart einkabönkum verði jöfnuð með tilliti til:

a. greiðslu ríkisábyrgðargjalds — gróflega reiknað 220 millj. kr. á ári,

b. greiðslu tekjuskatts — gróflega reiknað 180 millj. kr.,

c. kröfu um eiginfjárhlutfall — en það er einungis 5% hjá Íbúðalánasjóði en 8% hjá bönkum og sparisjóðum,

d. reglna um greiðslu vaxtabóta vegna viðgerða húsa — en þar hefur Íbúðalánasjóður algera sérstöðu,

e. skuldajöfnunar opinberra gjalda,

f. uppgjörsaðferða?

Í þessum síðustu þremur liðum, eins og ég nefndi, er alger sérstaða hjá Íbúðalánasjóði gagnvart öðrum bönkum og sparisjóðum. Ég tel sjálfsagt að aðstoða þá sem eru að kaupa íbúðahúsnæði, sérstaklega í fyrsta skipti, og að við reynum að hafa það að markmiði að sem flest fólk, helst allir, geti búið í eigin húsnæði. Ég tel þó mun skynsamlegra að gera það með öðrum og skilvirkari hætti en þeim að halda úti þeirri stefnu sem við höfum gert fram til þessa. Á sama hátt held ég að við getum náð þeim félagslegu markmiðum sem flestir eru sammála um, í það minnsta í þessum sal, og er ég þá sérstaklega að vísa til þess að menn geti haft aðgang að lánsfjármagni sama hvar þeir búa á landinu. Ég tel að það sé mjög einfalt og auðvelt að ná því fram án þess að vera með fyrirferðamikinn ríkisrekstur á lánamarkaði. Og það eru fjölmörg dæmi, virðulegi forseti, víðs vegar í álfunni um að það sé gert með öðrum hætti. Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að við höfum algera sérstöðu hvað þetta varðar.