132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða ríkisbanka á húsnæðismarkaði.

590. mál
[13:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Það er augljóst að hann hefur skilning á þessu máli og það er verið, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, að skoða málið og er ánægjulegt að vita til þess að niðurstaða fæst á þessu ári. Það kemur náttúrlega fram og menn vita að þetta snýst ekki bara um vilja okkar hér á þingi því eins og ég nefndi áðan þá liggur fyrir að þær eftirlitsstofnanir sem við höfum undirgengist með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu virðast ekki vera sáttar við þann hátt sem við höfum á lánum á húsnæðismarkaði.

Vegna orða annarra hv. alþingismanna í umræðunni get ég verið alveg sammála mörgu því sem þar kom fram. Ég get t.d. verið sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um það markmið að lækka vaxtastigið og reyna að ná sem hagstæðustum kjörum fyrir það fólk sem er að kaupa sér húsnæði. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir og hlýtur að vera markmið okkar allra.

Hv. þm. Helgi Hjörvar hafði áhyggjur af verðbólgu. Þar er kannski stærsta málið í þessu. Það liggur alveg fyrir, og ég held að engin velkist í vafa um það að framganga ríkisins á þessum markaði hefur í það minnsta ekki hjálpað til að halda verðbólgu niðri. Ég held að allir geti verið sammála um slíkt og það er ekki rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hér sé hæsta húsnæðisverð á byggðu bóli, það stenst ekki. Þrátt fyrir að það hafi hækkað gríðarlega, af nokkrum ástæðum sem við höfum stundum rætt hér, þá er það samt sem áður lægra en gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er í sjálfu sér allt í lagi. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt við það. Aðalmarkmið okkar hlýtur að vera að bæta hag húsnæðiskaupenda. Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra um hans skoðun á þessu máli.