132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Merkingar á erfðabreyttum matvælum.

606. mál
[13:36]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn. Hún er ekki ný af nálinni á hv. Alþingi. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði fyrir ári að hinu sama. Eins hafa komið fram á fyrri þingum fyrirspurnir um upptöku þessara reglugerða.

Það er mikilvægt að hafa í huga að það tekur meira en mannsaldur að fá fram áhrif erfðabreyttra matvæla á heilsu fólks. Það má líkja því við áhrif reykinga en það tók a.m.k. 30 ár að sjá áhrif reykinga á heilsu fólks. Því er nauðsynlegt að neytendur hafi val, séu meðvitaðir og upplýstir um hvað það gæti þýtt að velja erfðabreytt (Forseti hringir.) matvæli. En fyrst og fremst er nauðsynlegt að fá slíkar merkingar á matvæli.